Fótbolti

Brjálaður út í danska lands­liðið: „Eins og að heilsa að nas­istasið“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn danska landsliðsins krjúpa í gær.
Leikmenn danska landsliðsins krjúpa í gær. vísir/getty

Auðkýfingurinn Lars Seier er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum og hann hefur heldur kveikt í Danmörk eftir sín síðustu ummæli.

Danska landsliðið spilaði við það enska í gærkvöldi og líkt og Ísland og England gerðu fyrir leik liðanna á laugardaginn þá krupu leikmenn liðanna fyrir leikinn.

Lars er ekki hrifinn af því og hann lét þá skoðun sína í ljós við BT í gær þegar hann var spurður út í leikinn, áður en hann hófst.

„Auðvitað mun ég horfa á fótbolta en það getur verið að ég mun ekki horfa á fyrstu mínúturnar til þess að halda blóðfæðinu í ágætis standi. Það er mikið stress að horfa á landsleiki og þetta er stór leikur í kvöld,“ sagði Lars.

„Hér tengir maður þetta við Black Lives Matter sem ég vil meina að standi fyrir and-rasisma (e. anti racism). Black Lives Matter er marxismi og þeir eru stoltir af því. Þetta eru femínistar sem eru á móti kjarnafjölskyldum.“

„Og þegar maður fer niður á hnén þá styður maður óeirðirnar í Bandaríkjunum, þar sem báðar hliðar haga sér illa, en Black Lives Matter upphefja óeirðirnar,“ sagði Lars og bætti við:

„Ég vil ekki sjá landsliðið mitt taka undir svona samtök. Í mínum augum er þetta eins og maður myndi heilsa að nasistasnið, ef maður vildi segja eitthvað fallegt um Þýskaland.“

Lars er einn helsti eigandi FCK þar sem íslenski landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson leikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×