Erlent

Trump réð „gervi-Obama“ sem hann út­húðaði og rak

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump með leikaranum sem á að hafa leikið Obama í myndbandinu umtalaða.
Donald Trump með leikaranum sem á að hafa leikið Obama í myndbandinu umtalaða. Twitter/CNN Politics

Donald Trump Bandaríkjaforseti réð leikara til að fara með hlutverk Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, í myndbandi þar sem Trump úthúðaði „forsetanum fyrrverandi“ og endaði myndbandið á því að Trump rak Obama á staðnum.

Þetta kemur fram í bók eftir Michael Cohen, fyrrverandi lögmann Trump. Bókin, sem ber titilinn „Disloyal: A Memoir,“ verður gefin út á þriðjudag en fréttastofa CNN hefur undir höndum afrit af bókinni þar sem Cohen fer ítarlega yfir það sem gekk á þann tíma sem hann starfaði hjá Trump.

Trump hefur lengi verið gagnrýninn á Obama og var það löngu áður en hann sóttist eftir embætti forseta. Hann hefur meðal annars opinberlega lýst yfir efasemdum um fæðingardag Obama og samkvæmt bók Cohen telur Trump að Obama hafi aðeins fengið inngöngu í Columbia háskóla og lagadeild Harvard vegna kynþáttar síns.

Maðurinn, sem Cohen segir hafa leikið Obama í myndbandinu, er ekki nefndur á nafn í bókinni og er heldur ekki greint frá því hvenær myndbandið var tekið upp. Í henni er þó ljósmynd sem sýnir Trump sitja við skrifborð og á móti honum situr svartur maður klæddur í jakkaföt með brjóstnælu af bandaríska fánanum, sem forsetar Bandaríkjanna bera ávallt. Á skrifborðinu fyrir framan Trump eru tvær bækur og á annarri má sjá nafn Obama stórletrað.

Cohen starfaði í áraraðir sem lögmaður Trump og „græjari,“ eins og Cohen hefur lýst sjálfur. Cohen segist vel til þess fallinn að fletta ofan af Trump, sem Cohen lýsir í bókinni sem „svikahrappi, lygara, eineltissegg og rasista,“ og að hann hafi aðeins sóst eftir forsetaembættinu til þess að fjárhagslega græða á því.

Cohen hefur þó sjálfur gerst sekur um ýmis svik en hann var árið 2018 sakfelldur fyrir alríkisglæpi, þar á meðal skattsvik, að hafa logið að Bandaríkjaþingi og að hafa brotið lög um fjármál kosningaframboða, sem hann og saksóknarar segja að hann hafi gert að tilskipun Trump til þess að tryggja honum sigur í forsetakosningunum árið 2016.

Í svari Keyleigh McEnany, upplýsingafulltrúa Hvíta hússins, við fyrirspurnum Washington Post, segir að „Michael Cohen sé smánaður glæpamaður og lögmaður sem misst hefur starfsleyfið sem laug að Bandaríkjaþingi. Hann hefur misst allan trúverðugleika og nýjustu tilraunir hans til að græða á lygum koma ekkert á óvart.“


Tengdar fréttir

Vara við „Rauðri hillingu“ á kjördag

Sérfræðingar eru byrjaðir að vara við því að niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember, gætu tekið miklum breytingum eftir kosninganóttina sjálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×