Íslenski boltinn

Frá­bærar fréttir fyrir ís­lenskan kvenna­fót­bolta

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur farið á láni til Hollands og Ítalíu en franska liðið Le Havre keypti hana einfaldlega frá Blikum nýverið.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur farið á láni til Hollands og Ítalíu en franska liðið Le Havre keypti hana einfaldlega frá Blikum nýverið. Vísir/Getty

Mikil ánægja ríkti í Pepsi Max Mörkunum í gær. Annars vegar var gleðin yfir því að Sara Björk Gunnarsdóttir hafi unnið Meistaradeild Evrópu með Lyon og hins vegar að Berglind Björg Þorvaldsdóttir væri á leið í atvinnumennsku í Frakklandi.

Franska liðið Le Havre keypti Berglindi nýverið og telur Margrét Lára Viðarsdóttir það augljóst merki um hversu vel sé fylgst með Pepsi Max deild kvenna erlendis frá. Umræðuna má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

„Hún er keypt til Frakklands og stingur okkur af í miðju Íslandsmóti. Hún átti örugglega ekki von á að það yrði mitt mót þegar hana langaði að fara í atvinnumennsku,“ sagði Helena kímin og bætti við.

„Hún er keypt frá Breiðablik, það er áhugavert.“

„Það eru bara frábærar fréttir fyrir íslenskan kvennafótbolta að deildin okkar selur, hún er áhugaverð. Það er fylgst með því sem er að gerast hérna. Við höldum oft að við séum bara á litla skerinu okkar og enginn viti neitt en greinilega ekki,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir sem spilaði sjálf sem atvinnumaður erlendis til margra ára.

„Berglind Björg er búin að eiga frábært tímabil og ég er rosalega glöð fyrir hennar hönd. Að vera taka þetta skref – ekki á lánsamning – segir loksins að hún sé að huga að framtíðinni og stefni á að vera úti næstu árin,“ bætti Margrét Lára við.

„Ég held hún verði allavega þessi tvö ár. Fer auðvitað eftir hvernig gengur, hvernig hún passar inn í liðið og hvort hún fái mikinn spiltíma,“ sagði Kristín Ýr Bjarnadóttir er Helena spurði hvort þetta væri það síðasta sem við myndum sjá af Berglindi í Pepsi Max deildinni.

Klippa: Segir ljóst að það sé verið að fylgjast með deildinni hér heima

Breiðablik er sem stendur í 2. sæti Pepsi Max deildar kvenna, einu stigi á eftir Íslandsmeisturum Vals en Blikar eiga leik til góða. Þá er liðið komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins.


Tengdar fréttir

„Ótrúlega gott tækifæri sem ég gat ekki sleppt“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hlakkar til að reyna sig í frönsku úrvalsdeildinni, þeirri sterkustu í Evrópu. Hún segir erfitt að yfirgefa Breiðablik en segir að tækifærið að ganga í raðir Le Havre hafi verið of gott til að sleppa því.

Berglind Björg á leið í frönsku úrvalsdeildina

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Breiðabliks, er á leið til franska úrvalsdeildarliðsins Le Havre og hefur líklega leikið sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×