Fótbolti

Holland vann Pól­land | Noregur tapaði heima | Öll úr­slit kvöldsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steven Bergwijn fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Steven Bergwijn fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Eric Verhoeven/Getty Images

Öllum átta leikjum Þjóðadeildarinnar í kvöld er nú lokið. Holland vann góðan 1-0 sigur á Póllandi og Noregur tapaði 1-2 gegn Austurríki á heimavelli.

Í riðli 1 í A-deild voru tveir áhugaverðir leikir í kvöld. Steven Bergwijn, leikmaður Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, tryggði Hollendingum 1-0 sigur með góðu marki þegar hann stýrði fyrirgjöf Hans Hateboer í netið eftir rúman klukkutíma leik.

Var þetta hans fyrsta landsliðsmark. Fleiri urðu mörkin ekki og Hollendingar tóku því stigin þrjú.

Þá gerðu Ítalía jafntefli við Bosníu og Hersegóvínu, lokatölur 1-1. Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik en Edin Džeko, leikmaður Roma á Ítalíu, kom gestunum yfir á 57. mínútu leiksins. Tíu mínútum síðar jafnaði Stefano Sensi metin fyrir Ítalíu og þar við sat.

Í riðli 1 í B-deild töpuðu lærisveinar Lars Lagerback 2-1 fyrir Austurríki á heimavelli. Michael Gregoritsch kom gestunum yfir þegar tíu mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Marcel Sabitzer tvöfaldaði forystu þeirra eftir rúman tíu mínútna leik í síðari hálfleik og róðurinn því orðinn þungur fyrir norska liðið.

Erling Braut Håland minnkaði muninn á 66. mínútu nær komust heimamenn ekki. Lokatölur því 2-1 fyrir Austurríki sem var án síns besta leikmanns, David Alaba. Í hinum leik riðilsins gerðu Rúmenía og Norður-Írland 1-1 jafntefli.

Önnur úrslit

Skotland 1-1 Ísrael

Slóvakía 1-3 Tékkland

Litáen 0-2 Kasakstan

Hvíta-Rússland 0-2 Albanía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×