Fótbolti

Segir að enska landsliðið hafi lært af tapinu fyrir Íslandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þótt Gareth Southgate hafi ekki verið þjálfari enska landsliðsins gegn Íslandi á EM 2016 nýtti hann leikinn og reyndi að læra af honum.
Þótt Gareth Southgate hafi ekki verið þjálfari enska landsliðsins gegn Íslandi á EM 2016 nýtti hann leikinn og reyndi að læra af honum. getty/Steven Paston

Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englendinga, var að sjálfsögðu spurður út í tap Englands fyrir Íslandi á EM 2016 á blaðamannafundi enska landsliðsins í dag. Ísland og England mætast á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni á morgun.

Southgate var ekki þjálfari Englands á EM 2016 en segir að hann hafi skoðað leikinn gegn Íslandi og séð hvað Englendingar þurftu að bæta.

„Fyrir nokkrum árum kíktum við á 2-3 leiki sem við höfðum spilað og mismunandi þætti í þeim. Það stærsta sem við í þjálfarateyminu tókum út úr leiknum gegn Íslandi var þolinmæðin sem þú þarft að sýna ef þú lendir undir,“ sagði Southgate.

England komst yfir í leiknum fræga gegn Íslandi með marki Waynes Rooney úr vítaspyrnu á 4. mínútu. Ragnar Sigurðsson jafnaði tveimur mínútum síðar og Kolbeinn Sigþórsson kom Íslendingum svo í 2-1 á 18. mínútu sem urðu lokatölur leiksins.

„Oft undirbýrðu lið undir 0-0 stöðu en vilt ekki tala um hvað gerist ef þú lendir undir. Það getur alltaf gerst, sama hversu vel þú spilar. Andstæðingurinn getur alltaf skorað upp úr þurru. Við höfum bætt ákvarðanatökuna og þolinmæðina undir pressu á síðustu árum,“ sagði Southgate.

„Við höfum rætt mikið um þetta. Ef við lendum undir höldum við áfram að spila okkar leik, höldum ró okkar og tökum réttar ákvarðanir. Það er þáttur í framþróun liðsins og við nýttum okkur m.a. reynsluna gegn Íslandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×