Fótbolti

Kári: Alltaf svekktur þegar það eru einhverjir sem komast ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason hefur spilað 83 landsleiki fyrir Ísland þar af sextíu þeirra eftir að hann hélt upp á þrítugsafmælið sitt.
Kári Árnason hefur spilað 83 landsleiki fyrir Ísland þar af sextíu þeirra eftir að hann hélt upp á þrítugsafmælið sitt. Vísir/Kevin C. Cox

Kári Árnason tjáði sig um fjarveru lykilmanna íslenska landsliðsins á blaðamannafundi í dag, Kári tekur við fyrirliðabandinu en bæði aðalfyrirliðinn og varafyrirliðinn eru fjarverandi í þessu verkefni.

Kári sagðist hafa viljað alla leikmennina í hópnum en segir að hvert dæmi sé ólíklegt hverju öðru. Hann hvetur því yngri leikmennina til að sanna sig og segir að það sé kominn tími á það.

Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fékk sig ekki lausan frá Katar en varafyrirliðinn Gylfi Þór Sigurðsson gaf ekki kost á sér í leikina við England og Belgíu. Sömu sögu er að segja af þeim Jóhanni Berg Guðmundssyni og Alfreð Finnbogasyni sem hafa báðir verið að glíma mikið við meiðsli.

Kári Árnason verður 38 ára gamall í október en hann er enn að gefa kost á sér í landsliðið og hefur oft þurft að spila í gegnum meiðsli. Kári ræddi fjarveru þessara manna á blaðamannafundi í dag.

„Ég er alltaf svekktur þegar það eru einhverjir sem komast ekki. Við erum ekki það heppnir að geta valið úr endalaust af leikmönnum,“ sagði Kári Árnason.

„Auðvitað var það svekkjandi að þeir skildu ekki koma í þetta verkefni en öll þessi tilfelli eru bara mismunandi. Ég get ekki alhæft með það af hverju menn ákváðu að koma ekki. Það er bara eins og það er,“ sagði Kári Árnason

„Það er náttúrulega bara einhver klysja að segja þetta en menn verða bara að horfa á þetta sem tækifæri og reyna að festa sig í sessi. Það er kominn tími á það,“ sagði Kári Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×