Spánverjar jöfnuðu metin þegar uppbótartíminn var liðinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar fagna því að hafa jafnað metin undir lok leiks.
Spánverjar fagna því að hafa jafnað metin undir lok leiks. Matthias Hangst/Getty Images

Þjóðadeildin fór af stað í kvöld og stærsti leikurinn var án efa leikur Þýskalands og Spánar en liðin eru í riðli 4 í A-deild. Lauk leiknum með 1-1 jafntefli en Spánverjar jöfnuðu þegar uppbótartími leiksins var liðinn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust Þjóðverjar yfir snemma í þeim síðari með stórglæsilegu marki. Eftir að hafa spilað sig upp allan völlinn, frá hægir til vinstri, barst boltinn á Timo Werner inn í vítateig Spánar. Werner - sem gekk í raðir Chelsea á dögunum - fíflaði mann og annan áður en hann átti gott skot sem David De Gea, markvörður Spánar, réði ekki við.

Spánverjar héldu að þeir hefðu jafnað metin í uppbótartíma en dómari leiksins flautaði aukaspyrnu á Sergio Ramos, fyrirliða Spánar, inn í vítateig Þjóðverja. Ramos gerðist brotlegur í aðdraganda marksins sem hinn ungi Ansu Fati skoraði.

En það fór svo að Spánverjar jöfnuðu á endanum metin þegar vinstri bakvörðurinn Jose Gaya mætti inn í teig og skoraði með nánast síðustu spyrnu leiksins, lokatölur því 1-1.

Mikil dramatík undir lok leiks en jafntefli eflaust sanngjörn niðurstaða þegar öllu er á botninn hvolft. Bæði lið stilltu upp sterkum liðum en það sást þó á leikmönnum að margir hverjir eru enn ryðgaðir enda nýkomnir úr sumarfríi.

Í hinum leik A-riðils vann Úkraína 2-1 sigur á Sviss. Andriy Yarmalenko og Oleksandr Zinchenko skoruðu mörk Úkraínu á meðan Haris Seferovic skoraði mark Sviss.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira