Erlent

Framkvæmdastjóri innan ESB segir af sér vegna brota gegn sóttvarnalögum

Andri Eysteinsson skrifar
Berlaymont byggingin í Brussel, höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB.
Berlaymont byggingin í Brussel, höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar ESB. Getty/Sean Gallup

Framkvæmdastjóri viðskipta hjá Evrópusambandinu, Írinn Phil Hogan, hefur ákveðið að segja af sér eftir að hafa verið sakaður um brot gegn sóttvarnarreglum. Sky greinir frá.

Hogan hefur hafnað því að hafa brotið gegn reglum írskra stjórnvalda en hann flaug til Írlands frá Brussel 31. júlí síðastliðinn og ferðaðist í Kildare-héraðs þar sem hann dvaldi í húsakynnum K Club golfklúbbsins og snæddi þar kvöldverð en Belgía er ekki á grænum lista Íra og hefði hann því átt að minnka ferðir sínar næstu tvær vikurnar. Þó ferðaðist hann til Dublin 5. Ágúst og fór til læknis, þar gekkst hann undir sýnatöku sem var neikvæð.

Forsætisráðherra Írlands, Michael Martin, ræddi málefni Hogan í dag og sagði hann hafa grafið undan áherslum Íra í heilbrigðismálum. Martin sagði að það væri klárt að hann hafi brotið reglur um sóttkví en sagði þó ekki að Hogan þyrfti að segja af sér.

Hann hefur þó tekið þá ákvörðun eftir harða gagnrýni stjórnmálamanna og almennings, sér í lagi eftir að frásögn hans af atburðunum sem deilt er um breyttist í nokkur skipti.

Þegar hefur Dara Calleary, sem gegndi embætti landbúnaðarráðherra Írlands, sagt af sér vegna brota á sóttvarnarreglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×