Erlent

Að­stoðar­for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar segir skilið við stjórn­málin

Atli Ísleifsson skrifar
Isabella Lövin hefur gegnt öðru leiðtogaembættanna í flokki Græningja frá árinu 2016.
Isabella Lövin hefur gegnt öðru leiðtogaembættanna í flokki Græningja frá árinu 2016. Getty

Isabella Lövin, aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar og annar leiðtoga sænskra Græningja, hefur ákveðið að segja skilið við stjórnmálin.

Þegar Græningjar hafi valið sér nýjan leiðtoga mun hún segja af sér ráðherraembætti, en hún gegnir einnig embætti umhverfis- og loftslagsmála.

„Ég tel þetta vera það besta í stöðunni fyrir mig og fyrir flokkinn,“ hefur DN eftir Lövin.

Græningjar í Svíþjóð hafa alla tíð verið með tvo starfandi leiðtoga, einn karl og eina konu. Lövin segir að fyrst verði hægt að fá nýja konu til að fylla skarðið sem annan leiðtoga flokksins í lok janúar á næsta ári. Hún muni því áfram starfa í forystu flokksins þangað til. Per Bolund er hinn leiðtogi flokksins en hann gegnir nú embætti ráðherra fjármálamarkaða.

Lövin tók við öðru leiðtogaembættanna hjá Græningjum árið 2016. Hún var Evróðuþingmaður á árunum 2009 til 2014 og tók þá við embætti ráðherra þróunarsamvinnumála og gegndi því til ársins 2019. Tók hún þá við embætti umhverfis- og loftslagsmála, sem og embætti aðstoðarforsætisráðherra.

Jafnaðarmannaflokkurinn og Græningjar mynda nú ríkisstjórn í Svíþjóð og situr hún í skjóli stuðnings Miðflokksins og Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×