Erlent

R­at­ko Mla­dic á­frýjar lífs­tíðar­dómi

Atli Ísleifsson skrifar
Ratko Mladic í dómsal í morgun. Hann var meðal annars dæmdur fyrir þjóðarmorðið í Srebrenica í júlí 1995 þar sem um átta þúsund múslímskir karlar og drengir voru drepnir.
Ratko Mladic í dómsal í morgun. Hann var meðal annars dæmdur fyrir þjóðarmorðið í Srebrenica í júlí 1995 þar sem um átta þúsund múslímskir karlar og drengir voru drepnir. EPA

Ratko Mladic, fyrrverandi hershöfðingi Bosníu-Serba, hefur hafið ferli við að áfrýja lífstíðardómi sem Alþjóðastríðsglæpadómstóllinn í málefnum fyrrverandi Júgóslavíu, dæmdi hann í árið 2017.

Mladic var á sínum tíma sakfelldur fyrir þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni vegna þátttöku sinnar í Bosníustríðinu á tíunda áratugnum.

Mladic var meðal annars dæmdur fyrir þjóðarmorðið í Srebrenica í júlí 1995 þar sem um átta þúsund múslímskir karlar og drengir voru drepnir.

BBC segir frá því að þrír dómara við dómstólinn voru viðstaddir í gegnum fjarbúnað, en áætlað er að dómshaldið muni standa í tvo daga. Því hefur áður verið frestað vegna heilsubrests hins 78 ára Mladic og heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Mladic mætti í dómsalinn í Haag í morgun. Var hann með andlitsgrímu til að byrja með en fjarlægði hana síðar. Hann mun ávarpa dóminn í tíu mínútur á morgun.

Verjendur Mladic byrjuðu á því að segja að nauðsynlegt væri fyrir lækna að rannsaka ástand Mladic til að kanna hvort hann væri við nægilega góða heilsu til að taka þátt. Þá sögðu þeir að skjólstæðingur sinn hafi verið ranglega dæmdur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×