Skoðun

Sam­keppnin um unga fólkið

Oddný Björk Daníelsdóttir og Sigfríð Hallgrímsdóttir skrifa

„Frelsi, minna stress, fleiri klukkustundir í sólarhringnum“ eru m.a. það sem ungt, aðflutt fólk á landsbyggðinni svarar þegar spurt er hverjir kostirnir séu við að búa út á landi.

Við búum í samfélagi samkeppninnar. Það er samkeppni um bensínverð, starfsfólk, neytendur og síðast en ekki síst íbúa. Hjá sveitarfélögum landsbyggðarinnar er mesta samkeppnin um ungt fólk, við viljum fá ungt fólk til að búa í sveitarfélaginu okkar, festa hér rætur og stofna heimili.

En með auknum íbúafjölda aukast líka kröfurnar á sveitarfélagið. Fólk setur ýmislegt fyrir sig þegar kemur að því að velja heimkynni; húsnæði, atvinna, lífsgæði, þjónusta, heilbrigðiskerfi, samgöngur, skólakerfi, samfélag og svo mætti lengi telja.

„Skortur á atvinnu og húsnæði, ekkert að gera almennt“ er hinsvegar það sem ungt fólk svarar þegar það er spurt um ókostina við að búa út á landi.

Sveitarstjórn nýs sameinaðs sveitarfélags á Austurlandi þarf markvisst að vinna að því að fá fólk á öllum aldri til að setjast að til frambúðar. Eitt það fyrsta sem hindrar fólk að flytja er húsnæðisskortur. Því þarf að tryggja að fjölbreytt úrval deiliskipulagðra lóða sé til staðar sem og leiðbeinandi ráðgjöf vegna nýbygginga. Þannig auðveldar sveitarfélagið áhugasömum einstaklingum og verktökum að byggja íbúðarhúsnæði fyrir aðflutta sem og heimamenn.

Sveitastjórnin þarf líka að berjast fyrir öllum þeim opinberu störfum sem fyrir eru á svæðinu sem og að ná í verkefni og sérfræðistörf frá hinu opinbera. Þar með aukast möguleikarnir á fjölbreyttu atvinnulífi. Ný störf skapast líka heima í stofu hjá fólki þar sem hæfileikaríkir einstaklingar koma saman og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Það er sveitarfélaginu, sem og íbúum þess, í hag að nýta þann mannauð sem er á svæðinu og hvetja þá einstaklinga sem búa yfir góðum hugmyndum að til framkvæmda.

Maður er manns gaman og mannlíf í öllum byggðarkjörnunum er iðandi. Við eigum að vera ófeimin við að vera stollt af því sem við búum yfir; hér er menning, hér eru útivistaperlur, hér ættu allir að geta fundið einhverja afþreyingu við sitt hæfi.

Með vilja, dugnaði og þori er hægt að ná þessum markmiðum á komandi árum.

Það er full ástæða til að vera bjartsýn á að nýtt sveitarfélag geti tekist á við þá áskorun að laða ungt fólk að á komandi árum.

Unga fólkið kemur með tækifærin, bjóðum þau velkomin.

Oddný Björk Daníelsdóttir, 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, Sigfríð Hallgrímsdóttir, 17. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.




Skoðun

Sjá meira


×