Handbolti

Vilja að hætt sé við HM í handbolta

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland varð í 11. sæti á síðasta heimsmeistaramóti í handbolta, árið 2019.
Ísland varð í 11. sæti á síðasta heimsmeistaramóti í handbolta, árið 2019. vísir/epa

Ísland er á meðal þátttökuþjóða á HM karla í handbolta sem fara á fram í Egyptalandi í janúar. Ekki eru allir á eitt sáttir með að mótið fari fram, á tímum kórónuveirufaraldursins.

Forráðamenn þýsku handknattleiksfélaganna Kiel og Flensburg hafa kallað eftir því að HM verði aflýst.

„Við höfum ekkert á móti Egyptalandi en leikmenn þyrftu væntanlega að fara í 14 daga sóttkví eftir mótið. Það er ekkert vit í þessu,“ sagði Marc Weinstock stjórnarformaður Kiel við Sport-Bild. Boy Meesenburg hjá Flensburg tók í svipaðan streng.

„Egyptaland er kannski ekki beint þekkt fyrir mesta hreinlæti í heiminum,“ lét Meesenburg hafa eftir sér. Þeir Weinstock vilja auk þess að upphafi keppnistímabilsins í Þýskalandi verði frestað frá byrjun október og fram í byrjun janúar.

Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlín og varaformaður þýska handknattleikssambandsins, gagnrýnir kröfurnar um aflýsingu HM harðlega í viðtali við Sport1.

„Í hreinskilni sagt finnst mér það fordómafullt að ætla að neita landi eins og Egyptalandi að halda HM með þessum hætti. Ég er viss um að Egyptarnir eru ekki síður til þess færir en Þjóðverjar að uppfylla kröfur um hreinlæti. Mér finnst í raun sorglegt að einhver skuli tala svona,“ sagði Hanning og vísaði sérstaklega til ummæla Meesenburg.

„Menn verða að hugsa um hvað þessar kröfur þýða fyrir þýskan handbolta. Landsliðið er algjör drifkraftur fyrir okkar íþrótt. Við náum til 10 milljóna áhorfenda með heimsmeistara- og Evrópumótum, og félagsliðin græða á því að landsliðinu gangi vel,“ sagði Hanning.


Tengdar fréttir

Ísland komið á HM 2021

Umspilsleikirnir um sæti á HM 2021 í handbolta karla fara ekki fram. Ísland er komið á mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×