Sevilla Evrópu­deildar­meistari eftir fjörugan leik | Sjáðu sigur­markið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sevilla fagnar markinu sem tryggði þeim sigur í Evrópudeildinni.
Sevilla fagnar markinu sem tryggði þeim sigur í Evrópudeildinni. EPA-EFE/Friedemann Vogel

Spænska knattspyrnuliðið Sevilla virðist ekki geta tapað úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Liðið lagði Inter Milan í kvöld er liðið vann sinn fjórða úrslitaleik á sjö árum í keppninni.

Fyrri hálfleikur var með þeim opnari sem undirritaður hefur séð. Strax í upphafi leiks slapp Romelu Lukaku í gegnum vörn heimamanna. Diego Carlos gerði sitt besta til að elta Belgann uppi og reyndi að toga í hann utan teigs. Endaði það með því að hann náði góðu taki í treyju Lukaku þegar þeir komu inn í teig. Fór Lukaku í jörðina og vítaspyrna dæmd.

Lukaku fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Sevilla jafnaði metin strax á 12. mínútu en þar var að verki Luuk de Jong með skalla eftir fyrirgjöf Jesus Navas. Nákvæmlegas sama uppskrift og í sigurmarki Sevilla gegn Manchester United í undanúrslitum.

Þegar rúmur hálftími var liðinn fengu leikmenn Sevilla aukaspyrnu. Argentíski snillingurinn Ever Banega tók spyrnuna og smurði hana beint á pönnuna á Luuk de Jong sem skoraði sitt annað markí leiknum. Aftur með skalla.

Adam var þó ekki lengi í paradís en áðurnefndur Diego Carlos – sem átti svo sannarlega eftir að koma meira við sögu í leiknum – braut á Lukaku út á velli. Marcelo Brozovic tók aukaspyrnuna fyrir Inter, fór hún beint á kollinn á Diego Godin sem skallaði í netið.

Staðan orðin jöfn 2-2 eftir aðeins 36. mínútna leik, fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálflek.

Leikar róuðust töluvert í síðari hálfleik en sigurmarkið kom á 74. mínútu leiksins. Aftur var Banega með aukaspyrnu, Godin skallaði frá – eða upp í loftið – og títtnefndur Diego Carlos ákvað að hendaí eitt stykki bakfallsspyrnu.

Boltinn virtist stefna framhjá er Lukaku ávað að reka hægri fótinn út og þaðan flaug boltinn í netið. Staðan orðin 3-2 fyrir Sevilla og sama hvað Inter reyndi að jafna metin þá gekk það ekki eftir.

Sevilla landaði því 3-2 sigri og eru þar af leiðandi Evrópudeildarmeistarar. Fjórði slíki titillinn á síðustu sjö árum og sjá sjöundi á síðustu 16 árum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira