Innlent

Sundlaugargestir hafa kallað til lögreglu vegna tveggja metra reglunnar

Andri Eysteinsson skrifar

Komið hefur til þess að sundlaugargestir í höfuðborginni hafi kallað til lögreglu þar sem að illa hafi gengið að fylgja tveggja metra fjarlægðarreglunni. Þetta sagði Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri ÍTR í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Hann segir að heilt yfir hafi vel gengið að halda tveggja metra regluna í sundlaugum borgarinnar.

„Við erum auðvitað með takmarkanir og getum því ekki tekið við öllum þeim sem vilja koma. Það þýðir það að við erum með raðir, fólk er ósköp rólegt og tekur tillit til þess,” segir Steinþór.

Lögregla hafi í reglubundnu eftirliti með opinberum stöðum kíkt í sundlaugar og skoðað aðstæður en einnig hafi komið til þess að sundlaugargestir hafi sjálfir kallað til lögreglu vegna skorts á framfylgd fjarlægðarreglna.

„Við náttúrulega biðlum til fólks að gestir taki tillit til annarra og að þeir passi sjálfir upp á tveggja metra regluna. Við pössum upp á fjöldatakmörkunina og getum því bara tekið ákveðinn fjölda inn. Svo verður hver og einn gestur að taka tillit til allra í kringum sig,” segir skrifstofustjórinn.

Steinþór segir þá að starfsfólki sundlauganna geti reynst erfitt að átta sig á því hvaða aðilar eru fjölskyldumeðlimir og hverjir þekkjast ekki þegar reglum er framfylgt. Þá sé von á margmenni í sundlaugum um helgina líkt og hefur verið í veðurblíðu vikunnar.

„Það eru góðir dagar núna og þá vilja allir koma í sund. Í góðu veðri verða biðraðir og það er bara það sem menn þurfa að taka tillit til,” sagði Steinþór Einarsson skrifstofustjóri ÍTR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×