Erlent

Enginn bilbugur á Bloomberg

Andri Eysteinsson skrifar
Bloomberg heldur ótrauður áfram.
Bloomberg heldur ótrauður áfram. AP/Rich Pedroncelli

Forsetaframbjóðandinn og fyrrum borgarstjóri New York, Mike Bloomberg segist ekki ætla að draga sig úr baráttunni í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Tveir frambjóðendur sem hafa fagnað ágætu gengi í fyrstu forkosningunum hafa þegar lagt drauminn um Hvíta húsið á hilluna síðustu daga.

Fyrrverandi borgarstjórinn Pete Buttigieg og þingkonan Amy Klobuchar létu bæði gott heita fyrir forkosningarnar á ofur-þriðjudeginum á morgun en þá kjósa demókratar í fjórtán ríkjum og í Bandarísku Samóa-eyjum í forkosningunum.

Milljarðamæringurinn Mike Bloomberg ræddi við stuðningsmenn sína á stuðningsfundi sínum í Manassas í Virginíu og sagðist ekki ætla að fara að taka upp á því nú að tapa kosningum.

„Ég hef borið sigur úr býtum í þrennum kosningum hingað til. Ég ætla ekki að byrja tapa í kosningum núna,“ hefur AP eftir Bloomberg á fundinum. Nafn Bloombergs verður á kjörseðlinum í öllum fjórtán ríkjunum sem og í Bandarísku Samóa-eyjum og hefur hann varið stórfé í kynningarstarf í ríkjunum.

Bloomberg ræddi þau Buttigieg og Klobuchar, sem bæði hafa lýst yfir stuðningi við Joe Biden, og hrósaði þeim fyrir prúðmannlega framkomu og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni. „Þetta er leiðinlegt fyrir þau en ég er í þessu til að vinna,“ sagði Bloomberg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×