Fótbolti

Pulsan fer ekki á Laugar­dals­völl í dag eins og á­ætlað var

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pulsan á leið til Íslands.
Pulsan á leið til Íslands. mynd/ksí

Hitatjaldið, pulsan svokallaða, sem á að leggja á Laugardalsvöllinn til að verja hann gegn kulda fyrir leik Íslands og Rúmeníu síðar í mánuðinum fer ekki á völlinn í dag.

Þetta staðfesti Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, í samtali við Vísi. Hann segir að hún hafi verið lengur í tollinum en áætlað var og svo sé mikill snjór á dúknum sem nú liggi á vellinum.

„Hún mun líklegast fara upp á morgun,“ sagði Kristinn en það var nóg að gera hjá honum eins og undanfarnar vikur er Vísír sló á þráðinn.





„Það er þykkt lag á dúknum sem er nú á vellinum, tuttugu sentímetrar, og við erum að vinna í að tæma það. Leið og allur snjór er farinn af dúknum munum við skipta um dúk,“ sagði Kristinn.

Pulsan heldur hita á vellinum og hjálpar grasinu að verða tilbúið fyrir leikinn en það er jafnframt laus að hún má ekki við því að lenda í vondu veðri enda tekur hún auðveldlega vind.

Leikur Íslands og Rúmeníu fer fram 26. mars en leikurinn er undanúrslitaleikur um sæti á EM 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×