Erlent

Kamala Har­ris lýsir yfir stuðningi við Biden

Sylvía Hall skrifar
Joe Biden og Kamala Harris í kappræðum fyrr í vetur.
Joe Biden og Kamala Harris í kappræðum fyrr í vetur. Vísir/Getty

Öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum frambjóðandi í forvali Demókrataflokksins, Kamala Harris, hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden í forvali flokksins.

Þrír eru enn í framboði í forvali flokksins; öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders, Joe Biden fyrrverandi varaforseti og fulltrúadeildarþingmaðurinn Tusli Gabbard. Aðrir frambjóðendur hafa dregið framboð sitt til baka en ljóst er að annað hvort Sanders eða Biden munu hljóta tilnefninguna.

Í myndbandi sem Harris birti á Twitter-síðu sinni sagðist hún hafa mikla trú á Biden. Hún hafi þekkt hann lengi og væri viss um að hann væri maðurinn sem gæti sameinað þjóðina.

„Eitt af því sem við þurfum núna er leiðtogi sem er raunverulega annt um fólk og getur þar með sameinað fólk. Ég trúi því að Joe geti gert það,“ sagði Harris. 

Hún biðlaði til stuðningsmanna sinna að styðja við Biden í forvalinu þar sem mikið væri í húfi.

„Styðjið þið Joe með mér og klárum þetta.“ 

Óhætt er að segja að Biden sé í góðri stöðu í forvalinu sem stendur. Eftir ofurþriðjudaginn svokallaða náði hann að gera forvalið að tveggja manna keppni milli hans og Sanders en Biden bar sigur úr býtum í tíu ríkjum af fjórtán. 

Hann er nú með 664 landsfundarfulltrúa gegn 573 landsfundarfulltrúum Sanders. Frambjóðandi þarf 1.991 fulltrúa til þess að tryggja sér tilnefninguna. 


Tengdar fréttir

Biden fær byr í seglin

Forval Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hefur tekið stakkaskiptum á einungis nokkrum dögum.

Útlit fyrir nokkuð jöfn skipti hjá Demókrötum

Fjórtán ríki greiða atkvæði í forvali Demókrata fyrir bandarísku forsetakosningarnar í dag. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, og Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður eru sigurstranglegastir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×