Fótbolti

Íslensku stelpurnar unnu Þýskaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt hreinu á móti Þýskalandi í dag.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt hreinu á móti Þýskalandi í dag. Mynd/KSÍ
Íslenska nítján ára landslið kvenna í fótbolta sýndi styrk sinn í dag með 2-0 sigri á Þýskalandi á æfingamótinu í La Manga.

Það er ekki á hverjum degi sem íslenskt landslið vinnur Þýskaland og það er ljóst að þarna spila margar framtíðar A-landsliðskonur ef marka má þessa frammistöðu þeirra á Spáni. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland vinnur Þýskaland í þessum aldursflokki.



Íslensku stelpurnar unnu alla þrjá leiki sína í æfingaferðinni og skoruðu alls þrettán mörk í þessum þremur leikjum.

Ída Marín Hermannsdóttir og Barbára Sól Gísladóttir skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum í dag en bæði komu þau eftir undirbúning frá Sveindísi Jane Jónsdóttur.

Fyrst átti Sveindís Jane Jónsdóttir skot sem Ída Marín fylgdi á eftir og svo skoraði Barbára Sól með skalla eftir lang innkast Sveindísar.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði þrjú mörk í þessum leikjum og þær Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Barbára Sól Gísladóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir voru allar með tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×