Erlent

Enn tafir á flugi frá Tenerife

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sandur hefur fyllt öll vit á Kanaríeyjum.
Sandur hefur fyllt öll vit á Kanaríeyjum. vísir/getty

Enn eru tafir á flugi frá Tenerife vegna sandstorms sem gengið hefur yfir Kanaríeyjar. Flugi Norwegian Air sem fara átti frá Tenerife South til Keflavíkur klukkan átta að staðartíma í morgun, klukkan sjö að íslenskum tíma, hefur verið seinkað til klukkan 14:25.

Fleiri flugum sem fara áttu frá Tenerife South hefur verið frestað og einu flugi sem fara átti á eftir hefur verið aflýst.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum hafi verið hægt að fljúga frá fjórum flugvöllum á Kanaríeyjum í morgun, það er frá Gran Canaria, Lanzarote, La Palma og Tenerife North.

Þúsundir ferðalanga, þar á meðal hundruð Íslendinga, urðu strandaglópar á Kanaríeyjum um helgina vegna sandstormsins. Stormurinn ber með sér sand úr Sahara-eyðimörkinni.

Hafði spænska veðurstofan varað við því að veðrið gæti varað fram á daginn í dag en vindur hefur mælst allt að 35 m/s.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda er á meðal Íslendinga sem staddur er á Kanaríeyjum. Hann sagði í samtali við fréttastofu í gær að fáir væru á ferli á Gran Canaria, enda væri lítið spennandi að vera úti þegar veðrið er svona. Enn væri hvasst, ryk og sandur í andrúmsloftinu og því best að halda sig innandyra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×