Erlent

Domingo dregur í land með afsökunarbeiðni sína

Kjartan Kjartansson skrifar
Nokkur fjöldi fyrrverandi samstarfskvenna Domingo hefur sakað hann um kynferðislega áreitni.
Nokkur fjöldi fyrrverandi samstarfskvenna Domingo hefur sakað hann um kynferðislega áreitni. Vísir/EPA

Spænski óperusöngvarinn Plácido Domingo ítrekaði að hann hefði aldrei brotið gegn konum eða notfært sér stöðu sína gegn þeim, aðeins tveimur dögum eftir að hann bað hóp kvenna sem hefur sakað hann um áreitni afsökunar opinberlega. Fjöldi kvenna hefur sakað Domingo um kynferðislega áreitni og að hafa hindrað starfsframa þeirra sem höfnuðu honum.

Nokkur óperuhús í Evrópu íhuga nú að slíta samstarfi við Domingo vegna ásakanna. Stjórn Konunglegu óperunnar í Madrid ætlar til dæmis að ræða hvort hann eigi áfram að koma fram í uppsetningu á „La Traviata“ í maí.  

Aðeins nokkrum klukkustundum fyrir stjórnarfund óperunnar í Madrid sendi Domingo frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist vilja „leiðrétta misskilning“ sem upphafleg yfirlýsing hans þar sem hann bað konur afsökunar hefði valdið, að sögn New York Times. Hann sagðist ætla að draga sig út úr uppsetningunni í Madrid.

„Ég hef aldrei verið ágengur við neinn og ég hef aldrei gert neitt til að hindra eða skaða starfsframa nokkurs. Þvert á móti hef ég varið stórum hluta hálfrar aldar veru í óperuheiminum í að hjálpa iðnaðinum og að ýta undir feril óteljandi söngvara,“ sagði Domingo í yfirlýsingunni.

Engu að síður fullyrti hann að upphaflega afsökunarbeiðnin hafi verið sett fram í einlægni. Í henni bað Domingo konur sem hann hefði sært afsökunar.


Tengdar fréttir

Plácido Domingo biður konur af­sökunar

Spænski óperusöngvarinn Plácido Domingo hefur beðið fjölda kvenna afsökunar fyrir að hafa "valdið þeim sársauka“, en þær hafa sakað hann um kynferðislega áreitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×