Erlent

130 mega yfirgefa hótelið á Tenerife

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hótelinu Costa Adeje Palace var breytt í sóttkví á þriðjudag eftir að þar kom upp kórónuveirusmit.
Hótelinu Costa Adeje Palace var breytt í sóttkví á þriðjudag eftir að þar kom upp kórónuveirusmit. getty/picture alliance

Á annað hundrað gestum hótelsins Costa Adeje Palace á Tenerife hefur verið leyft að yfirgefa hótelið. Þar hafa þeir verið í sóttkví undanfarna daga ásamt tíu Íslendingum og um 900 öðrum gestum en fjögur kórónaveirutilfelli höfðu greinst á hótelinu.

Á blaðamannafundi nú síðdegis sögðu fulltrúar stjórnvalda á Kanaríeyjum að ekki hefðu fundist fleiri smittilfelli á hótelinu. Því sé óhætt að hefja brottflutning hótelgesta, í fyrsta holli verði 130 manns af 11 þjóðernum. Á blaðamannafundinum kom hins vegar ekki fram um hvað þjóðerni ræðir eða hver framtíð hinna í sóttkvínni verður. 

Gestirnir 130 eigi það hins vegar sameiginlegt að hafa innritað sig á hótelið á mánudag í þessari viku og eru ekki taldir hafa átt í neinum samskiptum við upphaflega smitberann, ítalskan lækni sem var gestur hótelsins. Hann, auk hinna þriggja sem greindust með veiruna á Costa Adeje Palace, höfðu öll yfirgefið hótelið áður en þessir gestir stigu fyrst þangað fæti.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki fengið upplýsingar þess efnis að Íslendingar séu á meðal þeirra 130 sem mega fara núna. Íslendingarnir sjö sem eru á Costa Adeje Palace á vegum ferðaskrifstofunnar Vita hafa sama skapi verið þar lengur en frá því á mánudag.

Kanarísk stjórnvöld segjast þegar hafa haft samband við hótelstjórnina og tjáð henni að fólkinu sé óhætt að yfirgefa sóttkvínna. Nú þegar sé búið að hafa samband við sendiráð þessara 11 ríkja til að auðvelda flutning fólks til heimalanda sinna. Þar að auki hefur starfsfólki hótelsins verið heimilað að valsa um svæðið að vild, svo lengi sem það gætir að hreinlæti sínu og öryggi.

Alls hafa fimm kórónuveirutilfelli komið upp á Kanaríeyjum, fjögur á Tenerife og eitt á La Gomera. Á fundinum í dag kom fram að hin smituðu séu öll við góða heilsu og að tvö þeirra hafi ekki sýnt nein einkenni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×