Erlent

Ummæli Bloomberg um minnihlutahópa og glæpi vekja umtal

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frambjóðandinn Michael Bloomberg er eigandi Bloomberg News.
Frambjóðandinn Michael Bloomberg er eigandi Bloomberg News. Getty/Jim Spellman

Ummæli sem Michael Bloomberg, einn af forsetaframbjóðendum Demókrata og einn ríkasti maður heims, lét falla árið 2015 um að lögregla ætti að einbeita sér að hverfum þar sem minnihlutahópar búi vegna þar séu „allir glæpirnir framdir“ gætu komið honum í klandur.

BBC fjallar um ummælin sem Bloomberg lét falla á fundi hugveitunnar Aspen Institute í Colorado-ríki Bandaríkjanna í febrúar 2015. Er frétt BBC byggð á hljóðupptöku af fundinum.

Þar má heyra Bloomberg, sem var borgarstjóri New York borgar á árunum 2002 til 2014, segja að 95 prósent allra morða, morðingja og fórnarlamba þeirra falli í einn flokk.

„Það er hægt að taka lýsinguna, ljósrita hana og láta löggurnar fá hana. Þetta eru karlar sem tilheyra minnihlutahópi á aldrinum 15 til 25. Þetta gildir um New York,“ sagði Bloomberg og bætti við að þetta mætti heimfæra á flestar borgir.

Þá ræddi hann einnig af hverju algengt væri að löggur einbeittu sér að hverfum þar sem minnihlutahópar eru í meirihluta.

„Af hverju gerum við það? Vegna þess að þar eru allir glæpirnir framdir,“ sagði Bloomberg.

Bloomberg hefur nýtt gríðarleg auðævi sín til þess að koma sér fyrir í kosningabaráttu forsetaframbjóðenda demókrata þar sem þröngt er á þingi. Forkosningarnar demókrata eru nýhafnar og fara kosningar númer tvo á dagatalinu fram í New Hampshire í dag. Bloomberg er þó ekki á kjörskrá í New Hampshire, sem þykir óvenjulegt.


Tengdar fréttir

„Buttigieg er enginn Obama“

Forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum í nóvember næstkomandi, þar munu Demókratar freista þess að koma í veg fyrir annað kjörtímabil Donald Trump, núverandi forseta Bandaríkjanna. Kosningabaráttan innan Demókrataflokksins er í fullum gangi en þegar hafa farið fram forkosningar í ríkinu Iowa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×