Erlent

Fimm ungir Svíar á­kærðir fyrir tvö morð í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað 25. júní síðastliðinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Árásin átti sér stað 25. júní síðastliðinn. Myndin tengist fréttinni ekki beint. vísir/vilhelm

Fimm ungir Svíar hafa verið ákærðir fyrir tvö morð sem framin voru í Herlev, úthverfi Kaupmannahafnar, síðasta sumar. Sá yngsti er sautján ára gamall og hinir ákærðu sagðir eiga aðild að samtökum sem stunda skipulagða glæpastarfsemi.

Greint var frá því þann 25. júní síðastliðinn að tveir sænskir ríkisborgarar á þrítugsaldri hafi verið skotnir til bana við Sennepshaven í Herlev. Morðin voru sögð tengjast átökum glæpagengja í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi.

Einn hinna grunuðu var handtekinn í Árósum daginn eftir morðið. Samstarf dönsku og sænsku lögreglunnar leiddi svo til þess að hinir fjórir voru handteknir. Voru þeir framseldir til Danmerkur.

Hinir ákærðu eru á aldrinum sautján til 25 ára. Lögregla í Danmörku segir bæði fórnarlömbin og hina grunuðu vera sænska ríkisborgara og ekki hafa neina sérstaka tengingu við Herlev.

Mennirnir eru einnig ákærðir fyrir tilraun til morðs þar sem ráðist var á einn mann til viðbótar, en sá slapp undan árásarmönnunum.

Áætlað er að réttarhöld hefjist í héraðsdómi í Glostrup næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×