Fótbolti

Tap KSÍ nam 50 milljónum og 65 milljóna tap áætlað í ár

Sindri Sverrisson skrifar
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.
Guðni Bergsson er formaður KSÍ.

Knattspyrnusamband Íslands tapaði 50 milljónum króna á árinu 2019 þrátt fyrir að rekstrartekjur væru 20 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þetta kemur fram í ársskýrslu sambandsins sem gerð hefur verið opinber í aðdraganda ársþingsins sem fram fer í Ólafsvík eftir rúma viku. Þar kemur fram að kostnaður við landslið var 88 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir, og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 12 milljónum hærri. Rekstargjöld Laugardalsvallar voru tæpum 13 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Þetta og fleira gerði að verkum að hagnaður KSÍ fyrir ráðstöfun fjár til aðildarfélaga nam tæpum 70 milljónum í stað 150 eins og áætlað var. Ákveðið hafði verið að deila 120 milljónum á milli aðildarfélaganna og því nemur tap ársins 50 milljónum eins og fyrr segir, en áætlaður hagnaður var tæpar 30 milljónir.

Eignir KSÍ nema hins vegar 1.393 milljónum og bókfært eigið fé í árslok um 696 milljónum.

Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir 65 milljóna króna tapi. Þar skiptir miklu máli 91 milljóna króna kostnaður vegna umspilsins um sæti á EM karla en umspilið fer fram í lok mars og er dýrt að hafa Laugardalsvöll leikfæran á þeim tíma. Aftur er gert ráð fyrir 120 milljóna króna framlagi til aðildarfélaganna á þessu ári. Ljóst er að hugsanleg þátttaka Íslands á EM hefur gríðarleg áhrif á tekjur ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×