Lífið

Þetta er Borgarfjörðurinn, segja þau sem búa eystra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bændurnir á Jökulsá, þau Þorsteinn Kristjánsson og Katrín Guðmundsdóttir, búa undir dyrunum í Dyrfjöllum.
Bændurnir á Jökulsá, þau Þorsteinn Kristjánsson og Katrín Guðmundsdóttir, búa undir dyrunum í Dyrfjöllum. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Íbúar á Borgarfirði eystri eru heimsóttir í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2. Undir bergrisanum Dyrfjöllum hvílir eitthundrað manna byggð, í þorpinu Bakkagerði og sveitabæjum í kring.

Bændurnir á Jökulsá búa undir „dyrunum“ en áin, sem bærinn dregur nafn sitt af, verður seint talin jafn mikilúðleg og jökulárnar og nöfnur sem streyma undan stórjöklum landsins.

Helgi Hlynur Ásgrímsson stendur fyrir veitingarekstri og tónleikahaldi á sumrin í félagsheimilinu Fjarðarborg.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Helgi Hlynur Ásgrímsson er einn af þessum rótgrónu Borgfirðingum, sem stunda trilluútgerð og rollubúskap með öðru. Hann segir okkur að fólk verði svolítið sérkennilegt af því að alast upp í svona samfélagi. 

Með aðeins fjögur börn eftir í skólanum hefur byggðin núna verið skilgreind sem brothætt. Borgfirðingar deyja þó ekki ráðalausir og beita ýmsum ráðum til að treysta búsetuna, með ólíkum verkefnum eins og ferðaþjónustu, dúnsængurgerð, harðfiskvinnslu og landabruggi.

Þá tókst þeim að endurvekja matavörubúðina á staðnum og sjá brátt fram á að endurbyggingu vegarins ljúki milli Héraðsflóa og Bakkagerðis.

Helga Björg Eiríksdóttir er að hefja framleiðslu bitafisks á Borgarfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Þegar spurt er hvort þeim þyki ekki óþægilegt að þurfa að aðgreina sig með „eystra“ svarar harðfiskverkandinn Helga Björg Eiríksdóttir: „Þetta er Borgarfjörðurinn!“

Hér má sjá brot úr þættinum, sem sýndur er á mánudagskvöld klukkan 19.10:


Tengdar fréttir

Búkollustjórinn Dóra einn af gleðigjöfum Borgfirðinga

Gleði ríkir meðal Borgfirðinga eystra að sjá loksins fyrir endann á uppbyggingu þjóðvegarins yfir til Héraðsflóa eftir áratugabaráttu. Liðlega tvítug stúlka er í hópi þeirra sem annast vegagerðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.