Erlent

Nauðlenti í Madríd með sprungið dekk

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér sést hvernig vélin hefur sveimað yfir Madríd.
Hér sést hvernig vélin hefur sveimað yfir Madríd.

Boeing 767-300 vél kanadíska flugfélagsins Air Canada nauðlenti heilu á höldnu á Barajas-flugvelli í Madríd laust eftir klukkan 19 í kvöld að staðartíma, eða skömmu eftir klukkan 18 að íslenskum tíma.

Vélin, sem var á leið frá Madríd til Toronto, tók á loft í dag klukkan 14:30 að spænskum tíma. Um hálftíma eftir flugtak komu í ljós vandræði með vélarbúnað og óskaði flugstjóri vélarinnar þá eftir því að fá að koma aftur inn til Madríd til nauðlendingar.

Flugvélin var hins vegar full af eldsneyti sem þurfti að brenna áður en hægt var að lenda vélinni. Hún sveimaði því yfir Madríd í nokkra klukkutíma áður en hún lenti skömmu eftir klukkan sjö.

Eitt af tíu dekkjum vélarinnar eyðilagðist við flugtak, sprakk að því er virðist, auk þess sem upp komu vandamál með vinstri hreyfil vélarinnar.

Alls voru 128 farþegar um borð. Að því er fram kemur á vef spænska dagblaðsins El País hélt flugstjórinn farþegum vel upplýstum á meðan sveimað var um yfir Madríd. Þá fullvissaði hann þá um að ekkert vandamál yrði að lenda þar sem það vantaði ekki fleiri hjól undir vélina en eitt.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:32.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×