Lífið

Tón­leika­ferða­lag með Jóker-tón­list Hildar hefst í apríl

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jókerinn og Hildur.
Jókerinn og Hildur. Mynd/Warner Bros/ANTJE TAIGA JANDRIG

Framleiðslufyrirtækið Warner Bros hyggst hrinda af stað tónleikaferðalagi með tónlist Hildar Guðnadóttur úr kvikmyndinni Joker. Fullskipuð sinfóníuhljómsveit mun flytja tónlistina, að því er fram kemur á vef Deadline þar sem greint er frá umræddu tónleikaferðalagi.

Tónleikaferðalagið hefst í Eventim Appollo-tónleikahöllinni í Lundúnum þann 30. apríl næstkomandi. Tónleikar verða svo haldnir víða í Bretlandi þar til í júlí en þá er einnig ráðgert að halda tónleika í öðrum Evrópulöndum, sem og á fleiri „alþjóðlegum“ áfangastöðum. Enn á eftir að tilkynna frekari dagsetningar og tónleikastaði.

Hljómsveitarstjórinn Jeff Atmajian, sem stýrði hljómsveitinni við upptökur á tónlistinni fyrir myndina, mun stjórna sinfóníuhljómsveitinni á fyrstu tónleikunum í Lundúnum í apríl.

Hildur hefur farið sannkallaða sigurför um Hollywood síðustu misseri og kemur hlaðin verðlaunum undan verðlaunahátíðum vetrarins. Hún vann BAFTA-verðlaun fyrir tónlist sína í Joker á sunnudag, Golden Globe í byrjun janúar og þykir líklegust til að vinna Óskarsverðlaunin í flokki kvikmyndatónlistar nú um helgina.

Haft er eftir Hildi í frétt Deadline að hún sé himinlifandi að áheyrendur geti nú notið Joker-tónlistarinnar í flutningi sinfóníuhljómsveitar, líkt og hún gerði við upptökur á tónlistinni á sínum tíma.

Joker hefur sópað að sér verðlaunum á verðlaunahátíðum síðustu vikur og mánuði, einkum þökk sé Hildi og aðalleikaranum, Joaquin Phoenix.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×