Erlent

Lífvörður Cameron gleymdi hlaðinni byssu á klósetti flugvélar

Samúel Karl Ólason skrifar
Annað vegabréfið tilheyrði David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og hitt lífverðinum sem hafði gleymt byssunni og vegabréfunum á klósettinu.
Annað vegabréfið tilheyrði David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og hitt lífverðinum sem hafði gleymt byssunni og vegabréfunum á klósettinu. EPA/FACUNDO ARRIZABALAGA

Manni sem var á leið frá New York til London á mánudaginn brá heldur í brún þegar hann fór á klósettið í flugvél og fann þar hlaðna skammbyssu og tvö vegabréf. Annað vegabréfið tilheyrði David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og hitt lífverðinum sem hafði gleymt byssunni og vegabréfunum á klósettinu. Atvikið átti sér stað á flugbraut í New York meðan flugstjóri flugvélarinnar var að bíða eftir heimild til flugtaks.

Umræddur lífvörður, sem starfar hjá lögreglunni, hefur verið settur í leyfi og er málið til rannsóknar. Lögreglan segir málið litið alvarlegum augum.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni varð upp fótur og fit meðal farþega eftir að byssan fannst. Flugstjóri flugvélar British Airways staðfesti við farþega að skotvopnið hefði fundist og ítrekaði að það væri í eigu lögregluþjóns sem hafði heimild til að bera vopnið. Farþegar voru þó ekki sáttir og var það að endingu tekið af honum, áður en flugvélinni var flogið á loft.

Cameron hefur sjálfur verið gagnrýndur fyrir kæruleysi en árið 2012, tveimur árum eftir að hann varð forsætisráðherra Bretlands, gleymdi hann átta ára dóttur sinni á bar þar sem hann borðaði hádegisverð. Hann sótti hana fimmtán mínútum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×