Atvinnulíf

Í aðdraganda aðalfunda: Fjögur atriði úr skýrslu Jeff Bezos

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Jeff Bezos forstjóri Amazon lítur svo á að hjá honum sé alltaf Dagur 1 í rekstri. Hann segir óánægða viðskiptavini mikilvæga.
Jeff Bezos forstjóri Amazon lítur svo á að hjá honum sé alltaf Dagur 1 í rekstri. Hann segir óánægða viðskiptavini mikilvæga.

Nú er aðalfundarhrinan framundan sem þýðir að fjölmiðlar munu í kjölfarið fjalla um tölur úr ársreikningum eða hverjir voru kosnir í stjórn. En fyrir aðalfundina er ýmiss undirbúningur í gangi. Eitt sem má nefna er að með ársreikningum skrifa framkvæmdastjórar og forstjórar skýrslu til stjórnar eða hluthafa.

Af því tilefni tókum við saman fjögur áhugaverð atriði úr skýrslu Jeff Bezos forstjóra Amazon í fyrra. Skýrslan er fyrir hluthafa og nokkuð áhugavert að rýna í hvað farsæll leiðtogi og einn ríkasti maður heimsins leggur áherslu á.

1. Óánægðir viðskiptavinir

Það hljómar kannski undarlega en eitt af því sem Bezos ræðir sérstaklega eru óánægðir viðskiptavinir. En þetta er kannski það sem gerir hann svo farsælan.  Bezos er á tánum í viðskiptum og gerir sér grein fyrir því að kröfur viðskiptavina breytast dag frá degi og þeim þarf að mæta. Um viðskiptavinina segir Bezos meðal annars:

„One thing I love about customers is that they are divinely discontent.“

Sem á íslensku mætti þýða sem „Eitt af því sem ég elska við viðskiptavini er hvað þeir eru ótrúlega óánægðir.“ Það sem Bezos er að vísa í er hversu mikilvægar kvartanir viðskiptavina eru því það að skilja óánægju viðskiptavina gerir ekkert nema að betrumbæta þjónustuna. Síðan minnir hann á það sem allir vita: Á tímum samfélagsmiðla geta áhrif óánægðs viðskiptavinar orðið að stórmáli.

2. Frá hugmynd til veruleika

Bezos segir í kveðju sinni til hluthafa að hjá honum sé enn Dagur 1. Hann segir að hugmyndir skipti litlu ef þær komist ekki til framkvæmda.

„Ideas have very little value in business and what turns out to have huge value is execution.“

Sjálfur segist Bezos hafa þurft að vinna í sjálfum sér til að ná betri tökum á þessu. Það hafi hann gert með því að reyna að vera með annan fótinn í framtíðarsýninni en hinn fastan fyrir í núinu þar sem tryggja þarf að verkefni komist í framkvæmd. Að ná tökum á þessu segir Bezos lykilatriði fyrir forstjóra.

Það er hægt að kenna öllum að standa á höndum segir Jeff Bezos. Hann segir þjálfun starfsmanna lykilatriði fyrir vöxt og velgengni fyrirtækja.

3. Að fjárfesta í þjálfun starfsmanna

Bezos segir að flestir falli í þá gryfju að vilja ráða fólk sem uppfyllir öll þau hæfisskilyrði sem hentugast eru. Það sé hins vegar margt sem ekki er hægt að kenna. Hávaxinn körfuboltamaður er eftirsóttur.  Þú kennir samt ekki ,,hæð“ segir hann sem myndlíkingu. Öllum sé hins vegar hægt að kenna að standa á höndum ef rétt þjálfun er til staðar. Að byggja upp fyrirtækjamenningu þar sem fjárfest er í þjálfun segir Bezos vera ávísun á frekari vöxt og velgengni.  

4. Háleit markmið um frammistöðu

Bezos er mjög hreinskilinn þegar kemur að því að setja kröfur á sitt fólk. Reyndar segir hann að ef stjórnendur eru ekki sagðir gera of miklar kröfur þá séu þeir ekki að setja markmiðið nógu hátt.

„I’d go so far as to say that if your standards are not considered unreasonable then they are simply not high enough.“

Bezos segir eitt lykilhlutverk leiðtoga að fá starfsfólk til að fara fram úr sínum eigin björtustu vonum. Hans upplifun sé sú að það sé í rauninni stórkostlegt að sjá hvað gerist þegar fólk er hvatt til að gera alltaf sitt besta. Fólk geri það ef það veit að það eru miklar væntingar gerðar um þeirra störf. Að ná árangri snýst ekkert endilega um sýnileg verkefni sem fá formlega umbun því oft séu um að ræða verkefni sem enginn veit um eða heyrir af. Þegar fyrirtækjamenningin sé sú að allir setja markið hátt upplifi fólk árangur alltaf sem umbun í sjálfu sér.

„…a culture of high standards is protective of all the ‘invisible’ but crucial work that goes on in every company. I’m talking about the work that no one sees. The work that gets done when no one is watching. In a high standards culture, doing that work well is its own reward–it’s part of what it means to be a professional.”

Bezos er trúr upprunanum því með hverri árskýrslu lýkur hann orðum sínum með tilvísun í fyrstu skýrsluna sína sem forstjóri árið 1997. 

„As always, I attach a copy of our original 1997 letter. It remains Day 1.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×