Erlent

Skoskur ráðherra segir af sér vegna samskipta við unglingsdreng

Kjartan Kjartansson skrifar
Derek Mackay var talinn rísandi vonarstjarna innan Skoska þjóðarflokksins.
Derek Mackay var talinn rísandi vonarstjarna innan Skoska þjóðarflokksins. Vísir/Getty

Fjármálaráðherra skosku heimastjórnarinnar sagði af sér aðeins nokkrum klukkustundum áður en hann ætlaði að leggja fram fjárlög eftir að upp komst um skilaboð sem hann sendi sextán ára gömlum dreng á samfélagsmiðlum um nokkurra mánaða skeið.

Skoskir fjölmiðlar greindu frá því að Derek Mackay, fjármálaráðherra hefði verið í sambandi við drenginn í gegnum Instagram og Facebook frá því í ágúst. Ráðherrann hafi sett sig í samband við drenginn „upp úr engu“ og sagði honum meðal annars í skilaboðum að hann væri „sætur“. Mackay er sjálfur 42 ára gamall.

Mackay sendi drengnum um 270 skilaboð á samfélagsmiðlunum og bauð honum meðal annars í kvöldverð og á rúgbíleik, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Skilaboðin héldu áfram jafnvel eftir að drengurinn staðfesti að hann væri sextán ára og sagði Mackay að „reyna ekkert“. Nýjustu skilaboðin voru frá því fyrr í þessari viku.

Nicola Sturgeon, oddviti heimastjórnarinnar og Skoska þjóðarflokksins, sagðist hafa samþykkt afsögn Mackay með þeim orðum að ráðherrann hefði staðið sig vel í embætti en að hann hafi viðurkennt að hafa brugðist með hegðun sinni.

Mackay sagðist hafa hegðað sér „eins og flón“ og að hann axlaði ábyrgð á framferði sínu. Hann hafði verið rísandi vonarstjarna innan Skoska þjóðarflokksins og var af mörgum talinn líklegur til að gegna embætti oddvita heimastjórnarinnar í framtíðinni. Hann kom opinberlega út úr skápnum þegar hann fór frá eiginkonu sinni árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×