Körfubolti

Grindavík þarf fimm stiga sigur til að taka áttunda sætið af Þórsurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson í leik með Grindavík fyrr í vetur.
Sigtryggur Arnar Björnsson í leik með Grindavík fyrr í vetur. Vísir/Daníel

Einn af mikilvægari leikjunum í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í körfubolta í ár fer fram í Grindavík í kvöld.

Heimamenn í Grindavík taka þá á móti Þór úr Þorlákshöfn í slagnum um Suðurstrandarveginn en leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Þórsarar eru tveimur stigum á undan Grindvíkingum í töflunni en Þórsliðið situr í áttunda og síðasta sætinu sem hefur þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Þórsliðið vann fjögurra stiga sigur á Grindavík, 83-79, í fyrri leik liðanna. Grindavík þarf því fimm stiga sigur til að komast yfir Þór á innbyrðis viðureignum.

Síðasti leikur liðanna var 13. nóvember en bæði lið hafa breyst síðan þá. Þau hafa nefnilega bæði skipt um Bandaríkjamenn og bætt við sig leikmanni með evrópskt vegabréf.

Bandaríkjamaðurinn Vincent Terrence Bailey var aðeins með 9 stig fyrir Þór í fyrri leiknum en hann fór um áramótin og í stað hans kom Jerome Frink sem er með 20,2 stig að meðaltali í fyrstu sex leikjum sínum með Þór.

Jamal K Olasawere var með 22 stig og 15 fráköst í fyrri leiknum á móti Þór en í stað hans fengu Grindvíkingar Seth LeDay sem hefur skorað 21,5 stig að meðaltali í fyrstu tveimur leikjum sínum með liðinu.

Þórsarar hafa einnig fengið til sín bakvörðinn Sebastian Eneo Mignani sem er með 9,2 stig og 5,2 stoðsendingar í leik. Bakvörðurinn Miljan Rakic, sem Grindavík fékk til sín í janúar er með 3,3 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Leikurinn í Mustad-höllinni í Grindavík hefst eins og áður segir klukkan 19.15 í kvöld en útsending Stöðvar 2 Sport byrjar klukkan 19.05. Tveir aðrir leikir fara fram á sama tíma í deildinni en Fjölnir tekur þá á móti ÍR í Grafarvogi og Tindastólsliðið heimsækir Hauka á Ásvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×