Erlent

Talning í Iowa sögð plöguð af misræmi og mistökum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá kjörfundi í Dubuque í Iowa. Miklar tafir hafa orðið á úrslitum vegna tæknilegra vandamála.
Frá kjörfundi í Dubuque í Iowa. Miklar tafir hafa orðið á úrslitum vegna tæknilegra vandamála. AP/Nicki Kohl/Telegraph Herald

Úrslit frá kjörfundum í forvali Demókrataflokksins í Iowa í Bandaríkjunum eru full af misræmi og mistökum samkvæmt greiningu sérfræðinga New York Times. Þeir telja ekkert benda til þess að um vísvitandi hagræðingu úrslita hafi verið að ræða og að misræmið hafi ekki hyglað efstu tveimur frambjóðendunum.

Margra daga tafir hafa orðið á því að tilkynnt verði um endanleg úrslit forvals demókrata í Iowa vegna misræmis sem kom upp í tilkynningu um tölur frá kjörfundum á mánudagskvöld. Vandamálum með snjallforrit sem var notað til að halda utan um úrslitin hefur verið kennt um vandræðaganginn.

New York Times segir nú innra samræmi hafi skort í úrslit frá fleiri en hundrað kjörfundum. Þá vantaði í sumum tilfellum gögn og í öðrum voru úrslitin ekki möguleg samkvæmt flóknum reglum forvalsins í Iowa. Einnig eru sögð dæmi um að atkvæðatölur stemmi ekki og að frambjóðendum hafi verið úthlutuðum röngu hlutfalli kjörmanna.

Sérfræðingarnir segja að hluti misræmisins sé að líkindum saklaust og að ekkert bendi til þess að viljandi hafi verið átt við úrslitin. Hvorki Bernie Sanders né Pete Buttigieg, frambjóðendurnir sem hlutu mestan stuðning í forvalinu, hafi notið sérstaklega góðs af misræminu og mögulega séu áhrif þess lítil á endanleg úrslit.

Afar litlu munar á fylgi Sanders og Buttigieg í Iowa þegar 97% kjörfunda hafa skilað úrslitum og dregið hefur saman á milli þeirra frá því þegar fyrstu tölur voru kynntar. Klúðrið gæti þó tafið enn að endanleg úrslit liggi fyrir og valdið því að efasemdir ríki um hvern þann sem verður á endanum lýstur sigurvegari forvalsins.


Tengdar fréttir

Enn mjótt á munum hjá Demókrötum í Iowa

Niðurstöður úr prófkjöri Demókrata í Iowa fyrir bandarísku forsetakosningarnar fóru loks að berast í gærkvöldi eftir langa töf. Mjótt er á munum á milli efstu frambjóðenda.

Óánægja og tafir í Iowa

Miklar tafir hafa orðið á því að hægt sé að greina frá úrslitum í forvali demókrata í Iowa sem fram fór í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×