Erlent

Hluta Kastrup-flug­vallar lokað vegna veikrar konu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Konan lenti á Terminal 3 á Kastrup-flugvelli. Byggingunni var í kjölfarið lokað.
Konan lenti á Terminal 3 á Kastrup-flugvelli. Byggingunni var í kjölfarið lokað. Vísir/EPA

Einni flugstöðvarbyggingu Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn hefur verið lokað vegna veikrar konu, sem hóf að finna fyrir flensueinkennum við lendingu í morgun. Heilbrigðisyfirvöld staðfesta að grunur sé um Wuhan-kórónuveirusmit.

Danska ríkissjónvarpið DR hefur eftir upplýsingafulltrúa flugvallarins að konan sé kínversk og hafi verið flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús. Konan var aðeins inni í einni byggingu flugstöðvarinnar, Terminal 3, og var byggingunni lokað skömmu fyrir klukkan níu í morgun að dönskum tíma, í samræmi við tilmæli frá dönskum heilbrigðisyfirvöldum. Vandleg hreinsun á byggingunni stendur nú yfir.

Konan kom til Kaupmannahafnar snemma í morgun frá Kína með millilendingu í Helskinki í Finnlandi. Hún kveðst hafa verið með grímu fyrir vitum sér frá því að hún lenti á flugvellinum. Þá segir upplýsingafulltrúinn að ekki sé vitað hvort veikindi konunnar séu af völdum Wuhan-kórónuveirunnar.

Forsvarsmenn Hvidovre-sjúkrahússins í Kaupmannahöfn, sem og heilbrigðisyfirvöld, staðfesta að sjúklingur af flugvellinum hafi verið fluttur á sjúkrahúsið í vegna gruns um Wuhan-veirusmit. Öllum verkferlum hafi verið fylgt og sjúklingurinn sæti nú einangrun.

Engin Wuhan-veirusmit hafa hingað til greinst í Danmörku. Tilfelli veirunnar hafa hins vegar verið staðfest í nágrannalöndunum Finnlandi og Svíþjóð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×