Erlent

Sondland einnig vikið úr starfi

Andri Eysteinsson skrifar
Sondland þegar hann kom fyrir þingnefnd.
Sondland þegar hann kom fyrir þingnefnd. AP/Andrew Harnik

Sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, Gordon Sondland, hefur verið tjáð að honum verði vikið úr embætti af Donald Trump, Bandaríkjaforseta.

Fréttir af brottrekstri Sondland berast stuttu eftir að ofurstanum Alexander Vindman var vikið úr starfi í Þjóðaröryggisráði Hvíta hússins. BBC greinir frá.

Sondland og Vindman eiga það sameiginlegt að hafa borið vitni gegn Donald Trump í rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum hans.

Forsetinn var sýknaður af báðum ákærum um embættisbrot af öldungadeild Bandaríkjaþings þar sem flokksbræður Trump í Repúblikanaflokknum eru í meirihluta.

Sondland fór fyrir þingnefnd í október síðastliðnum og er þar sagður hafa staðfest að tilraunir Trump til að fá úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka málefni Joe Biden og sonar hans í Úkraínu hafi jafngilt „kaupi kaups“ (l. Quid pro quo).

Í yfirlýsingu sinni segir Sondland að honum hafi verið tjáð að forsetinn ætli sér að afturkalla umboð hans til þess að koma fram fyrir hönd Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu. Sondland sagðist þakklátur forsetanum fyrir að hafa veitt honum tækifæri til að starfa fyrir þjóð sína og þakkaði hann einnig utanríkisráðherranum Mike Pompeo fyrir skilyrðislausan stuðning í sinn garð..


Tengdar fréttir

Vitnisburði sendiherrans líkt við tundurskeyti á varnir forsetans

Vitnisburði Gordon Sondland, sendiherra Bandaríkjanna hjá Evrópusambandinu, er líkt við tundurskeyti á varnir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og helstu bandamanna hans gegn rannsókn fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á meintum embættisbrotum forsetans.

Sondland sagðist fara eftir skipunum Trump

Fyrrverandi meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins viðurkennir að hafa lagt til að hylja gögn um símtal á milli Trump og Zelensky. Þrátt fyrir það sagðist hann ekki hafa heyrt neitt óviðeigandi í símtalinu.

Sagði símtalið umdeilda óviðeigandi

Alexander Vindman, meðlimur þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, segir umdeilt símtal Donald Trump og Volodymir Zelensky, forseta Bandaríkjanna og Úkraínu, hafa verið óviðeigandi. Það hefði ekki verið rétt af Trump að biðja erlendan þjóðarleiðtoga að rannsaka bandarískan borgara og pólitískan andstæðing hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×