Erlent

Þing­kosningar fara fram á Írlandi í dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Írar kjósa í dag til neðri deildar írska þingsins. Myndin er frá kjörstöðum í Írlandi þegar kosið var til Evrópuþings.
Írar kjósa í dag til neðri deildar írska þingsins. Myndin er frá kjörstöðum í Írlandi þegar kosið var til Evrópuþings. EPA/STRINGER

Kjörstaðir voru opnaðir á Írlandi kl. 7 í morgun að staðartíma en nú standa yfir kosningar til neðri deildar írska þingsins. Hafist verður handa við að telja atkvæðin í fyrramálið í öllum kjördæmum en Írland skiptist niður í 39 kjördæmi.

Nýkjörnir þingmenn munu koma saman þann 20. febrúar næstkomandi þegar þing verður sett og er þetta 33. skiptið sem kosið er til írska þingsins frá því að ríkið fékk sjálfstæði frá Bretum.

Í neðri deild þingsins sitja 160 þingmenn en þar á meðal er forseti þingsins sem kemst sjálfkrafa aftur inn á þing. Forseti þingsins hefur þó almennt ekki atkvæðisrétt og þarf því 80 þingmenn til að ná meirihluta í þinginu.

Þetta eru fyrstu þingkosningar Leo Varadkar, írska forsætisráðherrans, sem leiðtogi stjórnarflokksins Fine Gael. Flokkurinn er ekki með hreinan meirihluta í þinginu, með aðeins 47 sæti, en myndaði minnihlutastjórn, með stuðningi Fianna Fáil flokksins, með írska Sjálfstæðisflokknum og Sjálfstæðisbandalagsins.

Ólíklegt að nokkur flokkur nái hreinum meirihluta í þessum kosningum og er því líklegt að samsteypustjórn verði mynduð. Kosningakerfið í Írlandi er persónulegt hlutfallskosningakerfi (e. Single transferable vote) en þá forgangsraðar kjósandi frambjóðendum þess lista sem hann kýs með númerum.

Íbúar 12 eyja undan ströndum Galway, Mayo og Donegal kusu á föstudag. Löggjöf sem heimilar eyjaskeggjum að kjósa sama dag og aðrir landsmenn var ekki samþykkt í tæka tíð fyrir þessar kosningar.

Eyjaskeggjar hafa í gegn um tíðina kosið á undan öðrum íbúum landsins til að tryggja að slæmt veður kæmi ekki í veg fyrir að kjörkassar frá eyjunum kæmust til meginlandsins í tæka tíð til að telja atkvæðin. Um 2.100 atkvæðisbærir eyjaskeggjar búa undan ströndum Írlands.

Þetta er fyrsta skipti í sögu Írlands sem kosningar eru haldnar á laugardegi.


Tengdar fréttir

Írar kjósa í febrúar

Forsætisráðherra Írlands hefur beðið forsetann um að leysa upp þingið fyrir kosningar sem gætu farið fram 8. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×