Innlent

Allir skjálftar frá mið­nætti undir 2,0 að stærð

Atli Ísleifsson skrifar
Fjallið Þorbjörn sést hér fyrir miðri mynd en það er skammt frá Grindavík.
Fjallið Þorbjörn sést hér fyrir miðri mynd en það er skammt frá Grindavík. vísir/arnar

Lítil jarðskjálftavirkni hefur verið síðan um miðnætti við Grindavík og hafa þeir allir verið undir 2,0 að stærð. Enn mælist landris vestan við Þorbjörn.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar segir að með auknu eftirliti berist nú fleiri gögn í hús sem gefi skýrari mynd af þróun mála við Þorbjörn.

„Nýjasta GPS úrvinnslan sýnir áframhaldandi landris á svæðinu vestan við Þorbjörn. Í heildina hefur land risið um 3 cm frá 20. janúar sl.

Erfitt er að túlka breytingar út frá einstaka mælipunktum en með því að skoða meðaltal þéttari mælinga er greinilegt að landrisið er enn í gangi. Þar sem um er að ræða langtíma atburð þarf að fylgjast vel með mælingunum til lengri tíma til að átta sig betur á heildarferli jarðhræringanna.

Búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu og að áfram finnist stærstu skjálftarnir í hrinunni í grennd við Grindavík. Líklegasta skýring þessarar virkni er kvikuinnskot á 3-5 km dýpi rétt vestan við Þorbjörn. Algengast er að kvikuinnskotavirkni ljúki án eldsumbrota,“ segir í færslu vakthafandi jarðvísindamanns hjá Veðurstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×