Erlent

Skutu á bif­reið sem ekið var í gegnum öryggi­stálma við Mar-a-lago þar sem Trump hugðist dvelja

Eiður Þór Árnason skrifar
Mar-a-lago-setrið er í eigu Bandaríkjaforseta og hefur hann verið tíður gestur þar í forsetatíð sinni.
Mar-a-lago-setrið er í eigu Bandaríkjaforseta og hefur hann verið tíður gestur þar í forsetatíð sinni. Vísir/EPA

Lögreglumenn skutu á bifreið sem ekið var í gegnum öryggistálma við Mar-a-lago, sveitaklúbb Donald Trumps Bandaríkjaforseta, við Palm Beach í Flórídaríki. Atvikið átti sér stað rétt fyrir hádegi að staðartíma.

Sérstakur viðbúnaður var á svæðinu vegna áætlaðrar komu Bandaríkjaforseta og Melania Trump forsetafrúr þangað síðar í dag. Hvorugt þeirra var á svæðinu þegar atvikið átti sér stað en tveir eru nú sagðir í haldi lögreglu í tengslum við málið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu nálgaðist svartur jeppi aðalinngang setursins þar sem hann er sagður hafa keyrt á miklum hraða í gegnum öryggistálma án þess að hemla. Umræddur tálmi, sem er staðsettur í nokkurri fjarlægð frá Mar-a-lago, er búinn steinsteyptum hindrunum og vopnuðum löggæslumönnum.

Bandaríska leyniþjónustan hefur boðað til blaðamannafundar vegna málsins síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×