Erlent

Fyrsta tilfelli Wuhan-veirunnar greinist í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Vegfarendur í Taipei á Taívan ganga með andlitsmaska. Tilfelli Wuhan-veirunnar hefur nú einnig greinst þar.
Vegfarendur í Taipei á Taívan ganga með andlitsmaska. Tilfelli Wuhan-veirunnar hefur nú einnig greinst þar. Vísir/EPA

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu í dag að fyrsta tilfelli svonefndrar Wuhan-veiru hafi greinst í sjúklingi í Washington-ríki. Sex manns hafa látið lífið af völdum veirunnar sem er talin nýtt afbrigði kórónaveiru sem veldur einkennum sem líkjast lungnabólgu.

Washington Post segir að sá sem greindist sé karlmaður og að hann sé nú í stöðugu ástandi. Hann kom til Bandaríkjanna í síðustu viku áður en byrjað var að skima farþega frá kínversku borginni Wuhan á þremur stórum flugvöllum.

Veiran kom fyrst upp í borginni Wuhan í Kína og var rakin til markaðar með lifandi dýr. Kínversk yfirvöld hafa gert lítið úr möguleikanum á að veiran geti borist á milli manna. Breskir sérfræðingar hafa aftur á móti varað því að líklega hafi töluvert fleiri smitast af veirunni en kínversk yfirvöld hafa gefið upp.

Tilfelli veirunnar hafa greinst á Taílandi og nú síðast á Taívan. Vitað er um tæplega 300 manns sem hafa smitast af veirunni og hafa minnst sex látist vegna hennar.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) er sögð ætla að ákveða hvort að lýst verði yfir faraldri á fundi sínum á morgun.


Tengdar fréttir

Engin ástæða til að óttast Wuhan-veiruna hér á landi enn sem komið er

Fjöldi einstaklinga, sem greinst hefur með hinn dularfulla kórónavírus, þrefaldaðist um helgina og eru 200 tilfelli sögð hafa komið upp í Kína. Sóttvarnarlæknir segir enga ástæðu ennþá til að bregðast sérstaklega við en heilbrigðisþjónustunni hér á landi hafi verið gert viðvart.

Staðfesta smit manna á milli

Fjórði einstaklingurinn hefur nú látist í Kína af völdum kórónaveirunnar sem dreifst hefur um landið síðustu daga.

Wuhan-veiran dreifist hratt

Yfirvöld í Kína segja að fjöldi greindra einstaklinga með hinn dularfulla Kórónavírus hafi tekið kipp um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×