Erlent

Þrettán látnir í ó­veðrinu Gloria á Spáni

Atli Ísleifsson skrifar
Frá ströndinni við Mar Bella á Spáni.
Frá ströndinni við Mar Bella á Spáni. epa

Að minnsta kosti þrettán eru látnir og fjögurra er saknað eftir að óveðrið Gloria gekk á land á austurhluta Spánar fyrr í vikunni.

Talsmenn yfirvalda í Katalóníu greindu frá því að maður hafi drukknað í sjónum við L'Ametlla de Mar og annar maður fannst látinn í bíl sínum á flóðasvæði. Þá lést 75 ára kona í Alicante eftir að hús hennar hrundi vegna mikillar úrkomu. Fjögurra er enn saknað, meðal annars á Ibiza og Mallorca.

Vindhraðinn hefur náð 40 metrum á sekúndu og hefur ölduhæðin mælst 13,5 metrar.

Óveðrið hefur valdið talsverðri eyðileggingu á suður- og austurströnd Spánar. Úrkoman hefur verið í formi rigningar, snjókomu og hagléls og leitt til flóða sem hafa valdið skemmdum á byggingum, járnbrautarteinum og brúm. Flóð hafa sömuleiðis valdið skemmdum í suðurhluta Frakklands.

Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, heimsótti óveðurssvæðin í gær og hét hann því að ríkisstjórnin myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til að koma íbúum til aðstoðar. Kom ríkisstjórnin saman til neyðarfundar í dag til að ræða hvernig tryggja megi öryggi.

Óveðrið er nú í rénun, en enn eru fjöldi vega lokaðir, auk þess að víða hefur þurft að aflýsa skólahaldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×