Skoðun

Apríl­gabbi frestað

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Hvað sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna reynir að kjafta sig út úr leikskólamálinu, þá breytir það því ekki  að skerðing þjónustunnar átti að hefjast 1. apríl. Að öðrum kosti hefði sú dagsetning ekki verið nefnd. 

Það var ekki borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sem komu málinu  á dagskrá borgarstjórnarfundar þann 20. janúar sl. Heldur komst málið á dagskrá þar sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til á þeim fundi að hætt yrði við þessa þjónustuskerðingu.

Það var ekki fyrr en á þeim fundi sem borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna taldi það nauðsynlegt að fram færi ítarlegt mat á jafnréttislegum áhrifum þjónustuskerðingarinnar áður en hún ætti sér stað. Ásamt samráði við fulltrúa foreldra leikskólabarna. En þeim hópi var haldið frá samráði þegar meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna í skóla og frístundaráði borgarinnar lagði til þessa að þjónustuskerðingu. 

Það er þó ekki hægt að halda því fram að eingöngu vegna tillögu borgarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hafi það verið ákveðið að vinna málið betur.  Heldur var það fyrst og fremst vegna þess að baklönd Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna loguðu stafna á milli vegna málsins.

Borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna tók ekki afstöðu til tillögunnar, heldur vísuðu henni til borgarráðs, eins og sami borgarstjórnarmeirihluti hafði gert í skóla og frístundaráði. Það að ekki hafi verið ákveðið að hætta við þjónustuskerðinguna, heldur framkvæma hana að loknu jafnréttismati og auknu samráði, vekur upp þær spurningar hvort að saga þess samráðs verði á sama veg og svokallað samráð við foreldra grunnskólabarna í Grafarvogi, þar sem samráðið var í formi tilkynningar um ákvörðun sem þá þegar hafði verið tekin, en ekki til þess að hlusta á og taka tillit til sjónarmiða foreldra grunnskólabarna í hverfinu. Það virðist nefnilega ekki vera svo, eins og dæmin sanna, að í bókum borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna að samráð sé leið til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu um mál. 

Að lokum má svo í ljósi þess að borgarstjórn er farin að funda aftur reglulega eftir jólaleyfi má spyrja af hverju afgreiða átti jafn stórt mál og skerðingu á þjónustu leikskólanna á lokuðum fundi borgarráðs. Þar sem jafnvel væri hægt að taka ákvörðun um að bókanir vegna málsins færu í svokallaða trúnaðarbók og kæmu ekki fram í fundargerð borgarráðs,  í stað þess að málið væri tekið  fyrir á fundi borgarstjórnar. Þar sem allir þeir sem vildu gætu fylgst með framvindu málsins í meðferð borgarstjórnar.

Höfundur er varaformaður Verkalýðraðs Sjalfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×