Viðskipti innlent

World Class færir sig inn í Kringluna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nýja stöðin verður í rýminu sem oftast er kennt við fataverslunina Next. Þar var leikfangaverslunin Kids Coolshop síðast.
Nýja stöðin verður í rýminu sem oftast er kennt við fataverslunina Next. Þar var leikfangaverslunin Kids Coolshop síðast. Vísir/vilhelm

Vonir stjórnenda World Class standa til að ný líkamsræktarstöð keðjunnar opni í Kringlunni í lok sumars. World Class rekur nú þegar stöð í Kringlunni 1, andspænis verslunarmiðstöðinni, en til stendur að flytja þorra starfseminnar yfir götuna og í rýmið sem áður hýsti fataverslunina Next.

Björn Leifsson, eigandi World Class, segir að nýja stöðin verði á báðum hæðunum í rýminu. Á neðri hæðinni verði tækjasalur og búningsherbergi en á þeirri efri verði komið upp leikfimi og teygju- og upphitunarsvæði.

Björn Leifsson, annar frá hægri, ásamt Hafdísi Jónsdóttur við opnun World Class í turninum á Smáratorgi.World Class

Þar að auki stendur til að opna útisvæði við stöðina, þar sem áður mátti finna vörumóttöku fyrir verslanir rýmisins. Björn áætlar að þar verði hægt að setja upp um 60 til 70 fermetra verönd, þar sem komið verður upp heitum og köldum pottum auk gufubaðs.

Opnunartími til skoðunar

World Class fær rýmið afhent um næstu mánaðamót og gerir Björn ráð fyrir að framkvæmdir hefjist skömmu síðar. Ætlunin sé að opna stöðina í lok águst. Stöðin í Kringlunni 1 sé þó ekki á förum strax. Fyrirhugað er að crossfit-kennslan verði áfram á sama stað og að leikfimisalurinn á efri hæðinni verði jafnframt lagður undir crossfit þegar fram líða stundir. Eftir opnun á nýja staðnum verði gamla tækjasalnum síðan breytt í lager.

Til að komast inn í nýju stöðina segir Björn að stuðst verði við aðalinnganginn, þannig að ganga þurfi fyrst inn í verslunarmiðstöðina. Fyrirkomulagið verði þannig svipað og í stöð World Class í Smáralind. Aðspurður um hvort stöðin í Kringlunni verði áfram opin allan sólarhringinn segir Björn það vera til skoðunar. Hann útilokar ekki að ný stöð World Class í Vatnsmýri, sem vonir standa til að opni í vor, verði með sólarhringsopnun verði ekki hægt að hafa opið allan sólarhringinn í Kringlunni.


Tengdar fréttir

World Class í Vatnsmýrina

Verður á jarðhæð í nýbyggingu Grósku í Vatnsmýrinni við hlið Háskóla Íslands






Fleiri fréttir

Sjá meira


×