Sport

Íþróttafólkið á ÓL í Tókýó mun sofa á papparúmum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Papparúmin sem verða í boði fyrir íþróttafólkið á ÓL í Tókýó í sumar.
Papparúmin sem verða í boði fyrir íþróttafólkið á ÓL í Tókýó í sumar. Getty/Kyodo New

Eitt af því sem verður að vera í lagi nóttina fyrir mikilvæga íþróttakeppni er gott rúm. Þess vegna vekur það talsverða athygli að rúm íþróttafólksins á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar verða gerð úr pappa.

„Þessi rúm þola upp í 200 kíló,“ sagði Takashi Kitajima, framkvæmdastjóri Ólympíuþorpsins þar sem íþróttafólkið mun gista á meðan leikunum stendur. Það er afar ólíklegt að einhver íþróttafólksins sé þyngri en það.

„Þessi rúm eru sterkari en rúm úr tré,“ bætti Kitajima við í viðtali við blaðamann New York Daily News.



Það mun þó ekki ganga upp að fagna Ólympíuverðlaunum með því að stökkva upp í rúm.

„Auðvitað brotna þessi rúm eins og trérúm ef fólk er að hoppa á þeim,“ sagði Takashi Kitajima.

Rúmin verða síðan endurunnin eftir leikana og unnin úr þeim endurunninn pappír. Dýnan sjálf er auðvitað ekki úr pappa en hún verður líka endurunnin í alls kyns plasthluti.

Það verða átján þúsund papparúm í Ólympíuþorpinu en það er byggt upp af 21 íbúðaturnum. Þetta er í fyrsta sinn sem rúm íþróttafólks á Ólympíuleikunum verða endurnýjanleg eftir leikanna.

Forráðamenn Ólympíuleikanna kynntu nýju rúmin í gær en sjálft Ólympíuþorpið verður ekki tilbúið fyrr en í júní. Ólympíuleikarnir hefjast 24. júlí en rúmin verða einnig notuð á Ólympíumóti fatlaðra sem hefst 25. ágúst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×