Erlent

Flugfarþegum fækkar í Svíþjóð

Sylvía Hall skrifar
Fækkunin hefur verið sett í samhengi við aukna umhverfismeðvitund.
Fækkunin hefur verið sett í samhengi við aukna umhverfismeðvitund. Vísir/Getty

Rúmlega fjörutíu milljón manns fóru í gegnum flugvelli Svíþjóðar á síðasta ári samanborið við 42 milljónir árið áður. Því hefur ferðalöngum um flugvellina fækkað um fjögur prósent milli ára.

Á vef BBC segir að slík fækkun sé afar sjaldgæf miðað við undanfarin hjá Evrópuþjóðum og er hún sett í samhengi við svokallaða „flugskömmun“ eða flugviskubit sem vísar til kolefnisfótspors slíkra ferða, sem fólk verður æ meðvitaðra um.

Talsmaður Swedavia, rekstraraðila flugvallarins, segir þó fleiri ástæður liggja að baki þróuninni. Nefnir hann til að mynda hærri flugskatta í Svíþjóð og veikingu sænsku krónunnar en segir þó loftslagsbreytingar og aukna umræðu um mengun einnig geta haft áhrif.

Sífellt fleiri hafa ákveðið að ferðast án þess að fljúga og má þar nefna loftslagsaðgerðarsinnan Gretu Thunberg sem vakti mikla athygli þegar hún ferðaðist yfir Atlantshafið með skútu til þess að mæta á lofstlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York. Fleiri hafa ákveðið að taka Gretu sér til fyrirmyndar og hafa tæplega 23 þúsund manns skrifað undir áskorun um að fljúga ekkert árið 2020.

Sérfræðingar hjá fjárfestingabankanum Citigroup sagði áhrif aukinnar umræðu um loftslagsmál og breyttar neysluvenjur vera áþreifanleg í Svíþjóð. Þá gæti slíkt haft veruleg áhrif á framtíðarhorfur flugiðnaðarins.

Þrátt fyrir fækkun flugfarþega í Svíþjóð virðist þróunin vera önnur í öðrum Evrópuríkjum. Ferðamönnum fjölgaði um hundrað milljónir innan Evrópusambandsins milli áranna 2017 og 2018 og um átta milljónir í Bretlandi á sama tímabili. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×