Lífið

Gera alltaf sitt besta en stundum er það ekki nóg

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragna Sif Árnadóttir er læknir á bráðamóttöku Landspítalans og Elvar Steinn Þorvaldsson er stýrimaður á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Saman eru hjónin í björgunarsveit Kópavogs.
Ragna Sif Árnadóttir er læknir á bráðamóttöku Landspítalans og Elvar Steinn Þorvaldsson er stýrimaður á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Saman eru hjónin í björgunarsveit Kópavogs. Vísir/Vilhelm

Hjónin Ragna Sif Árnadóttir og Elvar Steinn Þorvaldsson hafa helgað lífi sínu því að hjálpa öðru fólki. Ragna er læknir á bráðamóttökunni í Fossvogi og Elvar er stýrimaður á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Bæði eru þau svo líka í Hjálparsveit skáta í Kópavogi og fara reglulega í útköll þegar á þarf að halda. Ragna og Elvar eiga saman tvö börn og viðurkenna að stundum geti verið krefjandi að láta heimilislífið ganga upp.

„Ég ætla bráðum að færa mig yfir á heilsugæsluna,“ segir Ragna þegar við setjumst við eldhúsborðið á heimili þeirra í Kópavogi. „Þó að þetta sé ótrúlega skemmtilegur vinnustaður þá er bæði vaktavinnan og álagið orðið svolítið mikið. Að vera bæði í vaktavinnu með tvö lítil börn er líka svolítið erfitt. Ég er að klára grunnnám í bráðalækningum sem er þriggja ára nám. Þegar það er búið þá ætla ég að skipta yfir í heilsugæsluna og fara í heimilislæknanámið.“

Ragna segir að hún hafi alls ekki séð fyrir sér í upphafi námsins, að vinnuumhverfið á bráðamóttökunni ætti eftir að verða svona slæmt eins og það er í dag. Mikið hefur verið fjallað um málið í fjölmiðlum en félagar í Félagi sjúkrahúslækna og Félagi almennra lækna sögðu í nýrri ályktun að hættuástand sé nú orðinn daglegur veruleiki á spítalanum.

„Ég sá ekki fyrir mér að ástandið á bráðamóttökunni ætti eftir að verða svona slæmt.“

Áhuginn kviknaði út frá björgunarsveitinni

Ragna er spennt fyrir nýjum verkefnum en segist enn mjög áhugasöm um starfið á bráðamóttökunni og utanspítalaþjónustunni og sér alls ekki eftir því að hafa valið þessa sérgrein á sínum tíma. Útilokar hún ekki að fara aftur í starf á bráðamóttöku síðar ef aðstæður verða öðruvísi.

„Ég vona það, allavega í hlutastarfi. Ég verð svo sem áfram í 20 prósent þarna svo ég er ekki alveg að segja bless. Starfsfólkið þarna er frábært og ég held að það sé það sem heldur bráðamóttökunni uppi núna. Starfsfólkið, mórallinn og teymisvinnan. Það er búið að bjarga öllu þar sem þetta hefur verið mjög krefjandi.“

Elvar tekur undir þetta og segir að það séu ákveðnar týpur af fólki sem velji sér störf sem þessi. Sjálfur er hann í sínu draumastarfi, sem hann hafði stefnt að í langan tíma áður en draumurinn rættist.

„Ég er sigmaður og stýrimaður á þyrlum Landhelgisgæslunnar. Áhuginn kviknaði örugglega í kringum björgunarsveitarstörfin, það leiddi að því að maður vildi starfa við það.“

Giftust æskuástinni sinni

Elvar og Ragna hafa verið par frá því þau voru táningar og eiga saman fimm ára stelpu og tveggja ára strák. Parið kynntist fyrst í skátunum en hafði þá vitað af hvort öðru í einhvern tíma þar sem þau áttu sameiginlegan vin.

„Leiðir okkar liggja svo saman þegar ég var í fyrsta bekk í menntó og hún var í 10. bekk,“ segir Elvar. „Við byrjum saman þegar ég er sextán ára og það var nú svona saklaust fyrstu árin en svo bara gekk þetta svo vel að við enduðum á að gifta okkur,“ útskýrir Ragna.

Elvar fór svo á skeljarnar í fjallgöngu árið 2011, á toppi Herðubreiðar. Það var viðeigandi að bónorðið kæmi upp á fjalli, þar sem fjallamennska og útivist hefur alltaf spilað stórt hlutverk í þeirra lífi og þeirra sambandi.

„Mamma og pabbi voru þarna líka ásamt fleirum. Hann var mjög vandræðalegur og þorði eiginlega ekki niður á hnén sko,“ segir Ragna. Elvar bætir við að hann hafi eiginlega nánast hvíslað bónorðið. „Þetta var svo skemmtilegt.“

Vildu gifta sig á fjalli

Þau giftu sig árið 2015 með alvöru sveitabrúðkaupi í Fljótshlíð. Þau hefðu helst viljað gifta sig inni í Þórsmörk eða einhvers staðar uppi á einhverju fjalli en ákváðu að velja frekar staðsetningu þar sem allir brúðkaupsgestirnir gætu mætt óháð aldri og líkamsformi.

„Við vorum skálaverðir saman í Hvanngili að fjallabaki, upp að Fljótshlíðinni og þar. Við vorum skálaverðir þar þrjú sumur og hún var þar líka með foreldrum sínum þegar hún var yngri. Við þekkjum þetta svæði því eins og handarbakið á okkur, maður á pínu í því,“ segir Elvar um valið þeirra á staðsetningu fyrir stóra daginn.

„Ég bjó með mömmu og pabba í Hvanngili þrjú sumur og við vorum þrjú systkinin. Skálavarðahúsið var 12 fermetrar og við bjuggum bara þar allt sumarið. Það var ekki hiti, takmarkað rafmagn og maður þurfti alltaf að fara út til að fara á klósettið. Þetta var mjög skemmtilegur tími og við ákváðum að fara saman í þetta aftur,“ segir Ragna.

Gengur merkilega vel

Þau gætu alveg hugsað sér að fara aftur í skálavörslu á svæðinu með börnin sín með sér og leyfa þeim líka að upplifa slíkt ævintýri. Útivist, fjallgöngur og ferðalög eru þeirra aðal áhugamál og fara þau til dæmis alltaf í langt ferðalag á hverju sumri þegar þau eru í sumarfríi. Þau eiga stóran bíl sem hægt er að sofa í og ferðast því á honum í nokkrar vikur með börnin á hverju sumri.

„Við pökkum í bílinn, ferðumst um landið og upplifum alls konar ævintýri,“ segir Elvar.

„Það gengur alveg merkilega vel,“ segir Elvar um það hvernig þau láta vaktavinnu og björgunarsveitarstörf ganga upp meðfram fjölskyldulífinu. „Við fáum vaktaskemu svolítið langt fram í tímann og getum sagt aðeins til hvernig við viljum vinna og þá getum við reynt að samræma vaktirnar okkar.“

Hann viðurkennir að það sé oft erfitt að vera á vöktum til skiptis og það koma tímar þar sem þau ná ekki að eyða miklum tíma tvö ein. Á móti fái þau oft gæðatíma saman og með börnunum þegar þau eru í vaktafríi, suma morgna þurfi þau ekki að drífa sig af stað með þau eldsnemma í leikskólann. 

„Það hefur líka alveg komið fyrir að við förum virka daga upp í sumarbústað og fáum bara frí fyrir krakkana í leikskólanum. Þá erum við kannski helgina í vinnu en tökum þá virku dagana í frí á móti. En það verður erfiðara þegar hún fer í skóla í haust, þá getur maður ekki kippt henni í burtu eða mætt klukkan tíu í skólann. Þá kemur meiri regla á lífið,“ segir Ragna.

Leigjandinn passar börnin

„Við höfum líka fengið mikla hjálp og svo erum við með stelpu sem leigir á neðri hæðinni. Það hefur hjálpað okkur mikið,“ bætir hún svo við. Elvar segir að þetta sé sérstaklega hjálplegt ef Ragna er á vakt á Landspítalanum og hann er á bakvakt hjá Landhelgisgæslunni og er kallaður út.

„Þá þarf hún bara að vera heima og vera tilbúin að koma upp ef þarf.“

Ragna nefndi það á kaffistofunni í vinnunni hvort samstarfsfólkið vissi um einhvern sem væri að leita að íbúð. Hjúkrunarfræðingur þar segir þá að hún eigi dóttur sem sé á leið í nám og vanti íbúð til leigu.

„Hún var vön börnum og fékk leiguna ódýrt gegn því að vera tilbúin til að hjálpa okkur. Þetta hefði ekki getað verið betra, þetta bara æxlaðist svona. Akkúrat.“ segir Ragna. Hún segir að auðvitað sé gott fyrir hjónabandið að stundum eru þau tvö barnlaus í einhverja tíma á meðan börnin eru á leikskólanum. Daginn sem blaðamaður hitti þau voru þau saman heima, hún nývöknuð eftir næturvakt og hann á leið á kvöldvakt.

„En það getur verið mikið vaktaálag. Það hefur alveg komið fyrir að við höfum unnið allar helgar mánaðarins á móti hvort öðru.“

Bíll fjölskyldunnar hefur fylgt þeim í mörg ævintýri.Mynd úr einkasafni

Mikilvægt að njóta dagsins

Hjónin láta vinnuna, álagið og öll útköllin ekki hafa áhrif á sambandið sitt. En þau viðurkenna fúslega að það hafi reynt á hjónabandið að byggja hús saman. Þau byggðu sér hús og gerðu mikið sjálf á sama tíma og þau voru með nýfætt barn og bæði í vaktavinnu. Lífið var eitt stórt púsluspil.

„Já það gerði það. Ég held við ættum ekkert að skafa af því, það kom svolítið eftir á þegar húsið var risið og maður var að reyna að koma sér aftur í þessa venjulega rútínu. Það vantaði svolítið þennan tíma bara fyrir okkur. Það kom alveg erfitt tímabil en við náðum að vinna okkur út úr því. Það sem hefur hjálpað okkar hjónabandi og sambandi mjög mikið er að við tölum mikið saman. Ef það er eitthvað að þá bara ræðum við málin þangað til að við komumst niður á lausn. Við erum líka farin að þekkja hvort annað mjög vel. Stundum þarf maður líka frítíma,“ segir Ragna. Þau reyna því að skiptast á að taka tíma fyrir sig sjálf, sem einstaklingar.

Nú er húsið alveg tilbúið og segja þau að þetta hafi algjörlega verið þess virði, þau eru flutt í sitt framtíðarhúsnæði og gátu sparað með því að gera mikið sjálf. En þau ætla samt aldrei að byggja aftur.

„Ég hef líka reynt að tileinka mér frá mömmu minni ákveðið æðruleysi. Að komast í gegnum hlutina. Maður þarf bara stundum að njóta dagsins og vera ánægður með það sem maður hefur og það sem maður gerir. Eitthvað sem er stundum erfitt,“ segir Elvar.

„Að missa ekki sjónar á því sem skiptir máli, við erum heilbrigð og við eigum tvö heilbrigð börn. Við eigum þak yfir höfuðið,“ bætir Ragna við.

Velja hvort fer í útkall

Elvar og Ragna hafa verið meðlimir í Hjálparsveit skáta í Kópavogi í mörg ár og byrjuðu bæði um leið og þau höfðu aldur til þess.

„Mamma og pabbi eru bæði björgunarsveitarfólk og mamma var formaður Hjálparsveitar Kópavogs í langan tíma. Þannig að ég svolítið fæðist bara inn í hjálparsveitina,“ segir Ragna og hlær. „Ég byrjaði um leið og ég mátti byrja, þegar ég var 17 ára gömul.“ Ragna byrjaði árið 2002 og Elvar byrjaði árið 2000. Bæði voru þau með bakgrunn úr skátunum. „Ég hafði svo mikinn áhuga að ég fékk að byrja hálfu ári fyrir afmælið mitt,“ útskýrir Elvar.  „Skátastarfið leiddi mig út í þetta og útiveran.“

Áður fyrr voru þau oft saman í útköllum en eftir að þau urðu foreldrar fer yfirleitt bara annað þeirra í útkall í einu. Meta þau þá eftir tegundar útkallsins hvort þeirra eigi að stökkva af stað, enda hafa þau ólíka sérhæfingu og styrkleika.

„Áður en við eignuðumst börn þá áttum við bara heima þarna, hvert einasta kvöld fór í þetta. Við fórum í hvert einasta útkall sem kom,“ segir Elvar. Ragna bætir við að allir í björgunarsveitinni séu vinir þeirra og því sé þetta líka eins og félagsmiðstöð.

„Fyrir mig þá er þetta fyrst og fremst félagsskapurinn, númer tvö er síðan þetta adrenalín í kringum þetta starf og útköllin og svoleiðis,“ segir Elvar.

„Þegar maður byrjar er þetta frekar stíft prógramm í tvö ár. Námskeið allavega aðra hverja helgi og þú þarft að mæta eitt kvöld í viku á vinnukvöld og frekari námskeið. Fyrstu árin svona eftir að þú byrjar er svolítið ætlast til að þú mætir í útköll,“ segir Ragna.

Þriðja fjölskyldan þeirra

Ragna viðurkennir að það hafi verið erfitt að þurfa að minnka við sig eftir að hún varð mamma. „Þá þurftum við að fara að skiptast á, hvort okkar myndi fara út í Skemmu, við köllum alltaf björgunarmiðstöðina það. Svo sérstaklega eftir að þessi tveggja ára kom þá hefur þetta svolítið minnkað.“

Börnin eru þó byrjuð að fara stundum með foreldrum sínum upp í björgunarmiðstöðina.

„Eins og eftir þetta útkall núna í Skálpanesinu á Langjökli þá tók ég strákinn með mér að ganga frá og honum finnst það ótrúlega spennandi, að skoða snjóbílinn og svona.“

Alveg eins og Ragna ólst sjálf upp í kringum björgunarsveitina þá munu þeirra börn án efa gera það líka.

„Þetta er bara lífsstíll og þetta er þriðja fjölskyldan þín. Við höfum lent í því að einhver hefur slasast eða eitthvað kemur upp á, þá styðjum við rosalega vel við hvort annað. Við hjálpumst að og fólk talar um að þetta sé þriðja fjölskyldan. Við erum miklu meira en bara björgunarsveit sem fer í útköll,“ segir Ragna stolt. „Svo er gert út á það hjá Kópavogssveitinni og ég veit að það er þannig hjá mörgum öðrum sveitum líka, að við förum í fjölskylduferðir. Við bjóðum mökum og börnum með og það fá allir að taka þátt. Ef makinn er ekki kominn í sveitina þá endar hann oft í sveitinni.“

Elvar kinkar kolli, sammála konu sinni og segir að í dag skipti þau útköllum nokkuð jafnt á milli sín.

„Það fer eftir því hvort okkar kemst og svo kemst maður ekki endilega alltaf, til dæmis ef maður er á vakt hjá vinnunni.“

Ragna bætir við að það skipti líka máli hvernig útkallið er. Nefnir hún sem dæmi að þegar bjarga þurfti 39 á Skálpanesi á Langjökli þá þurfti snjóbíla. „Þá fór Elvar með þar sem hann er umsjónarmaður snjóbílanna. Ef það kæmi slys eða fjallabjörgun einhvers staðar þá myndi ég fara.“ Ragna er læknir á bráðadeild og kemur hennar þekking og reynsla því að góðum notum í björgunarsveitarstarfinu.  

„Við förum samt oft saman og þá reynum við að fá aðstoð frá foreldrum okkar,“ segir Elvar.

„Til dæmis kom tilkynning einu sinni um að snjóflóð hefði fallið uppi í Bláfjöllum. Það reyndist svo þannig að það varð snjóflóð en það var enginn í því en við vissum það ekki í byrjun. Þá fáum við útkallið og mætum bæði út í hjálparsveit og tökum stelpuna með. Af því að mamma er í hjálparsveitinni líka þá fær hún útkallið og af því að þetta var snjóflóð þá er það stórt, svo hún mætir bara út í hjálparsveit gagngert til að taka hana. Hún bara vissi að okkur vantaði pössun.“

Björgunarsveitarfólk úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi á leið í útkall.Vísir/Vilhelm

Hjálpar að tala um hlutina

Þau segjast aldrei hafa íhugað að hætta í hjálparsveitinni eftir erfið útköll, eins og þau sem hafa ekki farsælan endi. Þau vilja frekar auka þátttöku sína ef eitthvað er. „Út frá störfunum sem við vinnum þá erum við öllu vön. Það eru líka miklu meiri líkur á að maður lendi í einhverju erfiðu í vinnunni heldur en í hjálparsveitinni,“ útskýrir Ragna.

Í störfum sínum, á bráðadeild Landspítalans og hjá Landhelgisgæslunni, þurfa þau bæði að upplifa langa og stranga daga og kljást við verkefni tengd veikindum, slysum, og dauðsföllum. Eftir slíka daga hika þau samt ekki við að stökkva af stað ef það kemur útkall frá hjálparsveitinni.

„Þar eru vinir þínir og þú vilt kannski líka hugsa um eitthvað annað. Eins og í störfum okkar, ef maður á erfitt útkall eða eitthvað þá er kannski bara auðveldara að fara í annað útkall, þá léttir það á hinu,“ segir Elvar. Ragna segir að þau hafi bæði þurft að læra að brynja sig. Elvar reynir að taka erfiðu reynsluna ekki inn á sig en segir að það sé samt ekki hægt að gleyma þeim.

„Þetta sest alltaf í bakpokann. Ég man eftir öllum erfiðum tilfellum sem ég hef farið í, þó að ég sé ekki alltaf að hugsa um þau þá man ég. Það segir þér að þetta er einhvers staðar á bak við.“

Hann segir að það sé mjög gott að geta rætt þessar tilfinningar við eiginkonuna, sem hefur í mörgum tilfellum upplifað þær líka.

„Það hjálpar náttúrulega mjög mikið að við erum bæði í þessu og getum spjallað um hlutina og það er náttúrulega bara trúnaður sem gildir. Svona vissa hluti, það er auðvitað margt sem við getum ekki rætt af því að við erum líka bundin trúnaði við skjólstæðinga okkar. En að létta á okkur, það hjálpar ótrúlega mikið.“

Elvar segir að í starfi sínu í áhöfn gæslunnar finni hann líka mikið fyrir því hvað það hjálpar þeim að vera þéttur hópur sem getur talað saman um hlutina.

„Líka að fara yfir hlutina aftur og aftur, hvort maður gerði ekki allt rétt. Það hjálpar til.“

Fjöllin spila stórt hlutverk í lífi hjónanna og trúlofuðu þau sig til dæmis á toppi Herðubreiðar.Mynd úr einkasafni

Gott teymi í erfiðum aðstæðum

Það kemur fyrir að störfin þeirra mætast og er það oftast við krefjandi aðstæður svo þau horfast varla í augu. 

„Ef þeir hafa komið með sjúkling inn á bráðamóttökuna og ég tekið á móti honum,“ segir Ragna. Elvar tekur undir þetta og segir að það sé ekkert skrítið eða óþægilegt að hittast í þessum aðstæðum, þetta sé bara hluti af þeirra lífi.  „Oft segjum við næstum því ekki einu sinni hæ. Maður er bara í sínum fasa.“

Það hefur líka komið fyrir að Ragna sé í bráðateyminu sem er sent með þyrlu Landhelgisgæslunnar í útkall. Elvar segir að þau vinni mjög vel sem teymi, bæði inni á heimilinu og utan þess.  

„Við erum búin að vinna mikið saman, við sáum um útivistarskóla Landsbjargar saman í þrjú sumur og svo vorum við að vinna í Hvanngili í skálavörslu í þrjú sumur. Þegar það koma upp slys og eitthvað þá þekkjum við alveg hvað hinn aðilinn getur gert. Við vinnum því vel saman undir slíkum kringumstæðum. Eins og ef við komum að slysi eða einhver slasast í hóp sem við erum að ferðast með þá hjálpar það mjög mikið.“

Þau segja að lykillinn að þeirra góðu samvinnu í krefjandi aðstæðum sé hvað þau séu dugleg að tala saman. „Það er svolítið eins og þegar maður er að vinna með öðru heilbrigðisstarfsfólki á vettvangi, þá verður maður bara að segja hlutina upphátt, það þýðir ekki að vera að byrgja eitthvað inni í sér. Maður þarf bara að koma hlutunum út ef eitthvað þarf að fara betur, til að hlutirnir gangi vel,“ segir Elvar.

Erfitt að geta ekki hjálpað

Hjónin hafa bæði helgað líf sitt því að hjálpa öðrum. Þau eru bæði sammála því að það sé mjög erfitt að vita af útkalli einhvers staðar og geta ekki verið á staðnum að aðstoða.

„Sérstaklega eins og ef maður er í sólarlöndum og það er brjálað veður heima og það er allt í gangi,“ segir Elvar. Ragna skellir þá upp úr og segir að hún gleymi aldrei fjölskylduferðinni þeirra til Flórída.

„Við vorum þarna og mamma og pabbi, bræður mínir og kona þess eldri og við erum öll í hjálparsveitinni. Það var enginn þarna sem var ekki í björgunarsveitinni. Það var brjálað veður á höfuðborgarsvæðinu, allt ófært innanbæjar og allir bílarnir okkar, snjósleðarnir og snjóbíllinn farnir úr húsi. Ég á sko mynd af þessu. Þeir sátu þarna á sundskýlunum á sundlaugarbakkanum fyrir framan tölvuna að fylgjast með þessu og þeir voru brjálaðir, þeir ætluðu bara heim.“

Elvar segist aldrei gleyma útkalli sem hann fór í þegar bíll fór ofan í sprungu á Hofsjökli árið 2006. Um þrjú hundruð björgunarsveitarmenn voru kallaðir til vegna slyssins, auk lögreglu, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Björgunarmenn voru í lífshættu allan tímann, enda margar sprungur á svæðinu.

„Það lést einn í þessu slysi en bjargaðist einn. Við Ásgeir félagi minn vorum að koma úr skíðaferð í Austurríki og við fengum símtalið þegar við vorum að labba út úr flugstöðinni og var óskað eftir snjóbíl upp á Hofsjökul. Það er mjög eftirminnilegt að fara beint úr skíðaferðinni í svona verkefni.“

Frá aðstæðum uppi á Langjökli við björgunina.Landsbjörg

Aldrei í erfiðari aðstæðum 

Elvar segir að í útkallinu á Langjökli í síðustu viku hafi hjálpað hvað hópurinn var þéttur og vann vel saman enda voru aðstæður mjög erfiðar. Ragna var á meðan í bækistöð björgunarsveitarinnar í Kópavogi.

„Hópurinn er í húsi og samrýmir hverjir eiga að fara og þess háttar. Þetta ótrúlega góða fólk er í húsi allan tímann að sinna alls konar málum á meðan aðrir eru í aðgerð. Til dæmis eins og þegar við vorum búin að vera í 17 tíma útkalli þá voru þau búin að skaffa bílstjóra til að keyra vörubílinn, snjóbílinn og jeppana til baka í bæinn enda var mannskapurinn sem var á tækjunum mjög þreyttur. Þau eru líka að sjá til þess að við fáum að borða og allt þess háttar, það er ótrúlega flott utanumhald,“ segir Ragnar. 39 ferðamönnum var bjargað af jöklinum þessa nótt og voru börn í hópnum, það yngsta sex ára.

Sjá einnig: 39 bjargað á Langjökli 

„Ég er búinn að vera í nítján ár í björgunarsveitinni og hef farið í ótal mörg útköll, alls konar útköll, bæði á sjó og á landi og fjöllum og hvað eina. Síðan líka í vinnunni minni. En ég held að þetta séu mest krefjandi aðstæður sem ég hef verið í, þetta útkall. En það gekk samt ótrúlega vel hjá okkur eins og á snjóbílnum af því að við erum svo þéttur hópur og þekkjum mörk hvers annars. Við erum að draga fram það besta úr hverjum einstakling og nýta þá í það sem þeir eru bestir í að gera. Þá gengur þetta bara eins og smurð vél.“

Mikið hefur verið rætt um ákvörðun ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineers of Iceland að leggja af stað í þessa ferð með ferðamennina þegar veðurspáin var svona slæm. Elvar og Ragna segja að björgunarsveitarfólkið hafi ekki verið að hugsa um það eða ræða það í þessu útkalli. „Það er ekki okkar að dæma, okkar skylda er gagnvart fólkinu,“ segir Ragna.

Elvar segir að í útköllum sem þessum sé ekki hægt að gera sér einhverja mynd upp af því hvernig aðstæður verði þegar komið verði á staðinn.

„Maður þarf alltaf bara að gera ráð fyrir því besta og því versta.“

Í þessu tilfelli gátu viðbragðsaðilar verið í samskiptum við fólkið á jöklinum og því vitað stöðuna, það hafi þó ekki verið tilfellið þegar hjónum var bjargað á Langjökli fyrir þremur árum, en Elvar var líka í því útkalli. „Það var enginn í sambandi við þau og það vissi enginn hvar þau voru. Þá var maður meira svartsýnn,“ segir Ragna.

Ragna hefur þurft að fara í útköll með Elvari vegna vinnunnar. Hann segir að þau vinni vel saman í erfiðum aðstæðum.Mynd úr einkasafni

Gera alltaf sitt besta

Mikið hefur verið um útköll síðustu vikur, mörg vegna veðursins. Álagið á björgunarsveitum landsins hefur því verið óvenju mikið. Elvar og Ragna segja að suma mánuði komi engin útköll svo það eru miklar sveiflur í þessu sem erfitt er oft að spá fyrir um. Mörg útkallanna leysast hratt og vel og rata ekki í fjölmiðla.

„Það sem helst yfir allt árið og eru svona svipuð útköll allt árið eru útköllin á bátinn hjá okkur því það er sjósókn allt árið jafnt og þétt, þannig að það eru ekkert einhverjar hæðir og lægðir í því.“

Ragna segir að þau hafi líka komið að slysum þegar þau eru hvorki á vakt í vinnunni né við björgunarsveitarstörf heldur sjálf á ferðalagi í sínum frítíma. Nefnir hún sem dæmi fótbrot, mann sem fór úr axlarlið og hryggbrotinn einstakling. Einnig bráðaofnæmi einstaklings í fjallgöngu. 

Elvar segir að þau atvik sem sitji mest í sér séu frekar vinnuútköll heldur en björgunarsveitarverkefni.

„Þegar við erum kallaðir út þá er það oftast eitthvað sem er alvarlegt. Það er eitthvað sem maður gleymir kannski ekki auðveldlega.“ Elvar segir að það geti oft verið erfitt að ná sér niður til að fara að sofa eftir útköll, enda adrenalínið ennþá á fullu. Hann reyni þó að hugsa ekki of mikið um þetta eftir að hann er kominn heim. Ragna bætir þá við:

„Maður gerir alltaf sitt besta og veit að maður gerði sitt besta, stundum er það bara ekki nóg.“ 


Tengdar fréttir

BBC fjallar um björgunina á Langjökli

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, birti í dag stutta umfjöllum björgun ferðamannanna 39 sem festust á Langjökli síðastliðinn mánudag.

Fundu lík í Núpá

Laust eftir hádegi tilkynnti áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar að búið væri að finna lík í Núpá við Fossgil. Líkið er talið vera af piltinum Leif Magnus Grétarssyni Thisland sem saknað hefur verið frá því á miðvikudagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×