Erlent

Booker dregur framboð sitt til baka

Kjartan Kjartansson skrifar
Booker náði ekki inn í sjónvarpskappræður demókrata og hefur ákveðið að draga sig í hlé.
Booker náði ekki inn í sjónvarpskappræður demókrata og hefur ákveðið að draga sig í hlé. Vísir/EPA

Cory Booker, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins frá New Jersey, hefur dregið framboð sitt í forvali flokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum til baka. Hann þótti líklegur til afreka í upphafi en framboð hans komst aldrei á flug.

Fylgi Booker hefur aðeins mælst nokkur prósent í skoðanakönnunum og honum tókst því ekki að vinna sér sæti í tvennum síðustu sjónvarpskappræðum frambjóðenda í forvalinu. New York Times segir að Booker hafi lagt áherslu á frið og sátt en þau skilaboð hafi ekki höfðað til kjósenda sem vilja ganga harðar fram gegn Donald Trump forseta.

„Ég tók þátt í þessari keppni til að vinna og ég hef alltaf sagt að ég myndi ekki halda áfram ef ég ætti ekki lengur möguleika á sigri. Framboðið okkar hefur náð þeim stað þar sem við þurfum meira fé til að færa út kvíarnar og byggja upp framboð sem getur unnið, fé sem við eigum ekki og fé sem er erfiðara að afla vegna þess að ég verð ekki með í kappræðunum næst og vegna þess að mikilvæg störf við kæru fyrir embættisbrot munu réttilega halda mér í Washington,“ sagði Booker í yfirlýsingu til stuðningsmanna sinna og vísaði til yfirvofandi réttarhalda yfir Trump forseta fyrir embættisbrot í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Þegar mest lét var á þriðja tug frambjóðenda í forvali demókrata og var hópurinn talinn sá fjölbreyttasti frá upphafi. Eftir brotthvarf Booker er hins vegar aðeins einn blökkumaður eftir í framboði, Deval Patrck, fyrrverandi ríkisstjóri Massachusetts.

Eftir standa tólf frambjóðendur í forvalinu. Sex þeirra etja kappi í síðustu sjónvarpskappræðunum áður en forvalið hefst á morgun. Fyrsta forvalið fer fram í Iowa mánudaginn 3. febrúar.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir að mikill fjöldi dragi framboð sitt til baka

Einungis helmingur þeirra tuttugu helstu frambjóðenda sem berjast um útnefningu bandarískra Demókrata til forsetaframboðs hefur uppfyllt þær kröfur sem þarf til þess að fá pláss í næstu kappræðum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×