Erlent

Íranar hafa ekki áhuga á nýjum „Trump-samningi“

Samúel Karl Ólason skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran.
Hassan Rouhani, forseti Íran. Vísir/AP

Hassan Rouhani, forseti Íran, hafnaði í dag tillögu að nýjum samningi við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlanir ríkisins. Hann sagði tillöguna „undarlega“ og sagði Trump ítrekað brjóta loforð sín og samninga. Tillagan að nýjum samningi kemur frá Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.

Johnson sagði í gær að Trump ætti að taka forystu í að gera nýjan samning og þannig tryggja að Íran byggi ekki upp kjarnorkuvopn. Í kjölfar orða Johnson sagðist Trump sjálfur sammála því að „Trump-samningur“ ætti að leysa kjarnorkusamninginn af hólmi.

Árið 2015 skrifuðu Íran, Bandaríkin, Kína, Rússland, Frakkland og Þýskaland undir kjarnorkusamninginn svokallaða. Í skiptum fyrir að þvinganir og annars konar refsiaðgerðir gegn Íran voru felldar niður samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Árið 2018 gengu Bandaríkin frá samningnum og Trump beitti Íran refsiaðgerðum á nýjan leik.

Í kjölfar þess hafa Íranar hægt og rólega hætt að framfylgja skilyrðum samningsins en eru enn undir eftirliti Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Þau Evrópuríki sem að samningnum komu virkjuðu í gær ágreiningsákvæði samningsins.

Rouhani sagðist ekki átta sig á því hvað Johnson væri að hugsa og hvatti hann Bandaríkin og aðra til að standa við samninginn frá 2015.

Íranar þvertaka fyrir að ætla að koma upp kjarnorkuvopnum.

Blaðamaður Reuters ræddi við Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, sem sagði tilgangslaust að gera nýjan samning við Bandaríkin.

„Ég var með samning við Bandaríkin og Bandaríkin brutu gegn honum. Ef ég geri Trump-samning, hve lengi varir hann?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×