Erlent

Höfundur met­sölu­bókarinnar Prozac Nation er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Elizabeth Wurtzel.
Elizabeth Wurtzel. Getty

Elizabeth Wurtzel, höfundur metsölubókarinnar Prozac-þjóðin (e. Prozac Nation) frá árinu 1994, er látin, 52 ára að aldri. Bókin vakti mikla athygli á sínum tíma en þar sagði Wurtzel frá glímu sinni við þunglyndi og fíkn.

Eiginmaður Wurtzel, Jim Freed, greindi frá því í samtali við bandaríska fjölmiðla að hún hafi andast á sjúkrahúsi í New York eftir áralanga baráttu við krabbamein.

Wurtzel skrifaði Prozac Nation þegar hún var á þrítugsaldri, en bókin þótti umdeild þar sem sumir gagnrýnendur hrósuðu höfundi fyrir hreinskilnina á meðan aðrir sögðu Wurtzel alltof upptekna af sjálfri sér. Í bókinni segir höfundur frá sjálfskaða, fíkniefnaneyslu og kynlíf sitt.

Í frétt BBC segir að bókin hafi valdið ákveðnum straumhvörfum á þá leið að sprenging varð í útgáfu sambærilegra bóka.

Wurtzel gaf út nokkrar bækur til víðbótar þó að engin þeirra hafi náð viðlíka vinsældum og Prozac Nation.

Wurtzel greindi frá því árið 2015 að hún hafi greinst með brjóstakrabbamein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×