Íslenski boltinn

Pepsi Max stúkan: Hræðsla leik­manna við fall­bar­áttu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur Benediktsson, Atli Viðar Björnsson og Tómas Ingi Tómasson fóru yfir neðri sex liðin í Pepsi Max stúkunni á mánudag.
Guðmundur Benediktsson, Atli Viðar Björnsson og Tómas Ingi Tómasson fóru yfir neðri sex liðin í Pepsi Max stúkunni á mánudag. vísir/skjáskot

Þeir Guðmundur Benediktsson, Atli Viðar Björnsson og Tómas Ingi Tómasson krufðu neðri hluta Pepsi Max-deildarinnar til mergjar í Stúkunni sem var á dagskrá á mánudagskvöldið.

Eitt liðanna sem voru krufin til mergjar var botnlið Fjölnis en þeir hafa einungis fengið þrjú stig í fyrstu níu leikjunum og enn ekki unnið leik.

„Ég veit alveg að Fjölnir reyndi fullt. Þeir fóru og hringdu fullt af símtölum og fóru á eftir einhverjum leikmönnum en einhverja hluta vegna gekk það ekki,“ sagði Atli Viðar.

Gummi Ben spurði þá hvort að leikmenn væru einfaldlega hræddir við að fara í fallbaráttu.

„Mín hugsun sem ungur leikmaður hlýtur að vera að mig langar að spila fótboltaleiki í efstu deild. Ef að ég er hjá Breiðablik, FH og þessum liðum og næ ekki að spila þar, þá vil ég frekar fara og fá reynslu hjá Gróttu, Fjölni, HK eða hvað sem það heitir,“ sagði Tómas Ingi og hélt áfram.

„Það er mín skoðun á þessu. Mér fyndist fáránlegt að hugsa að þetta lið gæti farið niður og ég ætla sko ekki að spila með þeim. Ég ætla frekar að vera á bekknum eða nítjándi maður á skýrslu. Það gefur þér ekki neitt.“

„Ætti það ekki frekar að vera „challange“ fyrir drengi sem eru að byrja fóta sig í deildinni? Að fara í lið sem er í vandræðum og reyna að breyta einhverju og gera eitthvað,“ bætti Atli Viðar við.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Hræddir við að falla?



Fleiri fréttir

Sjá meira


×