Fótbolti

Ó­sáttir með ráð­herra: „Þegar hann vaknar á morgun mun honum líða eins og mesta fífli Dan­merkur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mattias Tesfaye á fundi. Hann er ekki vinsælasti maðurinn í Danmörku.
Mattias Tesfaye á fundi. Hann er ekki vinsælasti maðurinn í Danmörku. vísir/getty

Forráðamenn FCK voru allt annað en sáttir við tíst Mattias Tesfaye, útlendinga- og aðlögunaráðherra, og hafa krafið hann um afsökunarbeiðni sem þeir hafa nú fengið.

Mattias er stuðningsmaður AGF í Danmörku og hann lét eftirfarandi tíst í loftið skömmu fyrir leik FCK gegn Manchester United í Evrópudeildinni í gærkvöldi.

„FCK-United? Gæti aldrei dreymt um að þessi félög myndu vinna fótboltaleik. En hvort liðið vona ég mest að tapi? Ég vona að Judas Stage og Kamil Paycheck tapi,“ skrifaði Mattias.

Síðar eyddi Mattias tístinu sínu en Jens Stage kom frá AGF til FCK og Kamil Wilczek, sem áður spilaði með erkifjendunum í Bröndby, spilar nú með FCK.

FCK birti svo yfirlýsingu fyrir leikinn í gærkvöldi þar sem þeir kröfðu ráðherrann um afsökunarbeiðni en báðir leikmenn hafa setið undir hótunum frá bæði stuðningsmönnum AGF og Bröndby.

„Það er eitt að stuðnigsmenn sendi hvorum öðrum pillu en að ráðherra noti svona tón finnst okkur óskiljanlegt og óafsakanlegt,“ en Mattias sendi frá sér yfirlýsingu í morgun.

„Í staðinn gæti ráðherrann kannski glaðst yfir að ungur maður eins og Mohamed Daramy, sem fékk ríkisborgararétt nýlega, getur í kvöld spilað gegn nokkrum af bestu fótboltamönnum í heimi, sem er afrakstur mikillar vinnu,“ sagði enn fremur í yfirlýsingu FCK.

Ståle Solbakken, þjálfari FCK, er ekki vanur að sitja á sínum skoðunum og hann hafði þetta að segja um málið.

„Þegar hann vaknar á morgun, mun honum líða eins og mesta fífli Danmerkur,“ sagði kjarnyrtur Norðmaðurinn í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×