Fótbolti

Solskjær: Markvörðurinn þeirra var ótrúlegur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær þakkar Karl-Johan Johnsson fyrir leikinn.
Ole Gunnar Solskjær þakkar Karl-Johan Johnsson fyrir leikinn. getty/Wolfgang Rattay

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var glaður í bragði eftir sigurinn á FC Kobenhavn, 1-0, í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

Bruno Fernandes skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 95. mínútu. Karl-Johan Johnsson átti stórleik fyrir FCK og varði hin þrettán skotin sem United átti á mark danska liðsins.

Klippa: Man. Utd. 1-0 FCK

„Þetta er í þriðja skiptið á þessu tímabili sem við komumst í undanúrslit svo við erum hæstánægðir að vera komnir áfram,“ sagði Solskjær eftir leikinn í Köln í kvöld.

„Við verðskulduðum sigurinn. Markvörðurinn þeirra var ótrúlegur og við skutum nokkrum sinnum í stöngina.“

Solskjær hrósaði sínum mönnum fyrir að ná að knýja fram sigur í leiknum í kvöld.

„Þetta hefði getað orðið einn af þessum leikjum sem fer í vítaspyrnukeppni. Við þurftum að verjast vel og þeir létu okkur hafa fyrir hlutunum. Þeir voru vel skipulagðir og með góða leikáætlun,“ sagði Solskjær.

„Við vissum að það yrði erfitt að brjóta þá á bak aftur og við urðum að vera þolinmóðir. Við vissum að við myndum fá tækifæri. Sóknarmennirnir okkar búa alltaf til færi.“

United mætir annað hvort Wolves eða Sevilla í undanúrslitum Evrópudeildarinnar mánudaginn 17. ágúst.

„Þetta eru tvö góð lið. Okkur er sama hverjum við mætum,“ sagði Solskjær um mögulega andstæðinga United í undanúrslitunum.

Sýnt verður beint frá öllum leikjunum sem eftir eru í Evrópudeildinni á Stöð 2 Sport. Keppni lýkur með úrslitaleiknum í Köln 21. ágúst. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×